Háskóli Íslands

Boðsfyrirlesarar

Ef fjárhagur stofnunarinnar leyfir, býður Málvísindastofnun fræðimönnum til landsins, að jafnaði einum á ári, og greiðir kostnað við ferðina – fargjald, gistingu og dagpeninga. Miðað er við að heildar­kostnaður fari ekki yfir 350 þús. kr. Gert er ráð fyrir að fræðimaðurinn dveljist á landinu í 5-7 daga og flytji a.m.k. einn opinberan fyrirlestur. Einnig er gert ráð fyrir að hann taki þátt í fundum og málstofum með félögum í Málvísindastofnun.

Markmiðið með heimsókninni er að fá til landsins virtan fræðimann sem getur miðlað af þekkingu sinni og reynslu til félaga í Málvísindastofnun. Æskilegt er að heimsóknin tengist fræðasviði sem verið er að byggja upp eða rannsóknarverkefnum sem áform­að er að ráðast í, en einnig er hægt að bjóða framúrskarandi fræðimönnum sem sérstakur fengur er að fá til landsins. Yfirleitt er ekki veittur styrkur til heimsókna sem ein­göngu nýtast verkefnum sem standa yfir og hafa fengið rannsóknarstyrk.

Félagar í Málvísindastofnun geta sótt um að fá að bjóða fræðimanni til landsins sam­kvæmt þessum reglum. Umsóknin skal berast stjórn Málvísindastofnunar fyrir 1. júní. Í henni þarf að rökstyðja væntanlegan ávinning af komu fræðimannsins, nefna hugsanlega tímasetningu heimsóknarinnar og áætla kostnað. Einnig þarf að fylgja áætlun um hvernig ætlunin er að nýta heimsóknina, bæði sem almenna kynningu í þágu félaga í Málvísindastofnun og í tengslum við verksvið og verkefni umsækjanda og samstarfsmanna hans.

Stjórn Málvísindastofnunar fjallar um umsóknirnar og ákveður fyrir 1. júlí hvaða heim­sókn verður styrkt hverju sinni. Við það mat er byggt á þeim atriðum sem nefnd eru í þessum reglum. Sé erfitt að gera upp á milli umsókna er heimilt að bjóða tveim gestum sama árið ef fjárhagur stofnunarinnar leyfir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is