Háskóli Íslands

Styrkir til framhaldsnema

Styrkir til meistaranema

Málvísindastofnun veitir nemum sem skráðir eru í meistaranám við Háskóla Íslands og virkir í námi í íslenskri málfræði og almennum málvísindum tvenns konar ferðastyrki sem tengjast náminu. Þetta á einnig við um nema í íslenskum fræðum og máltækni ef tilgangur ferðarinnar tengist málfræðihluta námsins:

1. Styrkur til að halda fyrirlestur á opinberri ráðstefnu eða á vegum rannsóknastofnunar eða háskóladeildar: Hámarksupphæð hvers styrks er 90 þúsund krónur. Hver nemandi getur fengið þrjá styrki, hámark einn á hverju misseri.

2. Styrkur vegna námsdvalar: Veittur er styrkur til að greiða að hluta eða öllu leyti skólagjöld/skráningargjöld á námskeiði/sumarskóla eða vegna sambærilegrar námsdvalar auk 70.000 kr. uppihaldsstyrks. Heildarstyrkur er að hámarki 130.000 kr. Skilyrði er að námið sé metið til eininga. Hver nemandi getur fengið einn styrk af þessu tagi. Þarf hann að hafa verið skráður í meistaranám í a.m.k. eitt misseri og lokið 20 einingum hið minnsta.

Sækja þarf um styrkina fyrir fram. Samþykki stjórn umsóknina þarf að ferð lokinni að leggja fram gögn sem sýna að hún hafi verið farin og fyrirlestur haldinn eða skólagjöld greidd (eftir því sem við á). Styrkur vegna námsdvalar eru greiddur þegar mat á einingum liggur fyrir. Hægt er að sækja um þessa styrki hvenær sem er ársins.

Umsóknareyðublöð um styrki til meistaranema má sækja hér.

Styrkir til doktorsnema

Málvísindastofnun veitir doktorsnemum sem eiga aðild að stofnuninni tvenns konar ferðastyrki sem tengjast náminu. Doktorsnemar þurfa að vera skráðir í nám og hafa greitt skráningargjald til að eiga rétt á styrk.

1. Styrkur til að halda fyrirlestur erlendis, á opinberri ráðstefnu eða á vegum rannsóknastofnunar eða háskóladeildar: Hámarksupphæð hvers styrks er 90.000 kr. Hver nemandi getur fengið þrjá styrki, hámark einn á hverju misseri. Að jafnaði eru ekki veittir styrkir til sömu ferða og Hugvísindastofnun styrkir. Ef þess er óskað þarf að rökstyðja beiðnina sérstaklega.

2. Lengri dvalarstyrkur: Styrkur til að afla heimilda á skjalasöfnum eða vel búnu háskólabókasafni, dvelja við erlendan háskóla eða rannsóknastofnun sem tengist viðfangsefni rannsóknar eða sækja skipulögð námskeið (t.d. sumarskóla). Lágmarksdvalartími er alla jafna tvær vikur. Hægt er að fá tvo styrki sem miðast við flugfargjald á hagstæðum kjörum, 70.000 kr. uppihaldsstyrk og greiðslu skólagjalda að fullu eða öllu leyti. Séu skólagjöld sérlega há má sameina styrkina, þ.e. taka einn í stað tveggja. Uppihaldsstyrkur hækkar þó ekki. Við mat á umsókn er tekið tillit til annarra styrkja til ferðarinnar. Styrkir af þessu tagi eru í heild að hámarki 300.000. Styrkur af þessu tagi er að jafnaði ekki veittur fyrr en fyrsta misseri er lokið.

Sækja þarf um styrkina fyrir fram og fá samþykki leiðbeinanda fyrir umsókninni. Samþykki stjórn umsóknina þarf að ferð lokinni að skila afriti af farseðli og brottfararspjaldi og kvittunum fyrir skólagjöldum (ef við á).

Hægt er að sækja um þessa styrki hvenær sem er ársins.

Umsóknareyðublöð um styrki til doktorsnema má sækja hér.

Auk þess veitir Hugvísindastofnun styrki til doktorsnema.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is