Árbók Háskóla Íslands 2007

Starfsmannamál

Áslaug J. Marinósdóttir gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá stofnuninni allt árið en seinni helming ársins var hún í 80% starfi hjá Málvísindastofnun en 20% hjá Hugvísindastofnun. Auk þess voru nokkrir lausráðnir starfsmenn fengnir til starfa þegar sérlega mikið var að gera við prófarkalestur og Eyrún Valsdóttir leysti Áslaugu af í hlutastarfi í sumarleyfi hennar. Sigríður Sigurjónsdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson voru fulltrúar kennara í stjórninni og gegndi Sigríður stöðu forstöðumanns. Fulltrúi stúdenta í stjórninni var Bjarki M Karlsson.

Útgáfumál

Málvísindastofnun gaf engar nýjar bækur út á árinu en eftirfarandi bækur voru endurprentaðar:

Bóksala

Talsverður hluti tekna stofnunarinnar kemur af bóksölu og útgáfu.

Sérfræðiþjónusta

Meginhluti tekna stofnunarinnar kemur af sérfræðiþjónustu (prófarkalestri) en þær tekjur eru ótryggar og eru breytilegar frá ári til árs.

Ráðstefnur og fyrirlestrar

Rask-ráðstefnan
Málvísindastofnun hélt áfram samstarfi við Íslenska málfræðifélagið um Rask-ráðstefnuna eins og árin á undan. Í ár var hún haldin í 21. sinn þann 27. janúar og fluttu 10 íslenskir fræðimenn erindi á henni. Í tengslum við ráðstefnuna var haldið málþing um setningarstöðu sagna á vegum öndvegisverkefnisins „Tilbrigði í setningagerð“ (sjá neðar) og rann það þing saman við hana. Tony Kroch frá Bandaríkjunum flutti erindi sem var á dagskrá beggja þinganna.

Vinnufundur um setningafræðirannsóknir
Dagana 30. maí – 1. júní hélt Málvísindastofnun vinnufund um mögulega samvinnu setningafræðinga frá ýmsum löndum. Þátttakendur voru frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Færeyjum, auk Íslands. Sérstaklega var hugað að samvinnu þeirra um máltöku barna, setningafræðilega greiningu forntexta og félagsfræðilega greiningu á íslenskum gögnum sem safnað hefur verið í tengslum við öndvegisverkefnið „Tilbrigði í setningagerð“

Verkefnið „Tilbrigði í setningagerð“
Málvísindastofnun hýsir verkefnið „Tilbrigði í setningagerð“ sem Höskuldur Þráinsson prófessor stjórnar og hlaut öndvegisstyrk Rannís. Stofnunin hefur séð um ýmsa skipulagningu við verkefnið og umsjón ákveðinna verkþátta í samvinnu við verkefnisstjórnina. Mótframlag vegna verkefnisins barst stofnuninni á árinu 2007 og á árinu 2008 berst einnig slíkt framlag.

Málþing um setningarstöðu sagna
Á vegum öndvegisverkefnisins „Tilbrigði í setningagerð“ og NORMS (Nordic Center of Excellence in Microcomparative Syntax) var haldið málþing um setningarstöðu sagna 26. janúar og tengdist það Rask-ráðstefnunni (sjá ofar). Á málþinginu voru þrír fyrirlestranna fluttir af íslenskum fræðimönnum og fimm af erlendum. Einn erlendu gestanna var Tony Kroch frá Bandaríkjunum.

Ráðstefna um setningafræðileg málafbrigði meðal mismunandi hópa samfélagsins
Dagana 15.–19. ágúst hélt Málvísindastofnun fjölþjóðlega ráðstefnu í Reynihlíð í Mývatnssveit. Að ráðstefnunni stóðu öndvegisverkefnið „Tilbrigði í setningagerð“ og norræna rannsóknanetið „Scandinavian Dialect Syntax“ (ScanDiaSyn). Þátttakendur voru á sjötta tug og fást allir við hliðstæð rannsóknaverkefni innan setningafræðinnar, hver í sínu landi. Auk þátttakendanna voru sérstakir boðsfyrirlesarar á ráðstefnunni úr hópi þekktustu fræðimanna á sínu sviði: David W. Lightfoot og Frederick Newmeyer frá Bandaríkjunum, Luigi Rizzi frá Ítalíu og Artemis Alexiadou frá Þýskalandi.

Málþing um fornöfn og eðli þeirra
Á vegum öndvegisverkefnisins „Tilbrigði í setningagerð“ og NORMS var haldið málþing um fornöfn og eðli þeirra dagana 8. og 9. desember. Fjórir íslenskir fræðimenn héldu erindi á þinginu og sjö erlendir gestir, þ. á m. Ken Safir frá Bandaríkjunum.

Styrkir

Fjárhagur stofnunarinnar leyfði ekki að greiddir væru styrkir til einstakra rannsóknarverkefna á árinu 2007.

Fjárhagur

Fjárhagsstaða stofnunarinnar hefur verið ótrygg undanfarin ár. Tekjur af sérfræðiþjónustu breytast frá ári til árs og dregið hefur jafnt og þétt úr opinberum framlög (í krónum talið) þrátt fyrir aukinn launakostnað.