Útgáfa

Málvísindastofnun gefur út fræðirit um söguleg og samtímaleg málvísindi og kennslubækur í íslensku, bæði fyrir þá sem hafa íslensku að móðurmáli og þá sem læra íslensku sem annað mál (sjá nánar undir Fræðirit, kennslu- og handbækur og Kennslubækur: Íslenska sem annað mál). Gefnar eru út tvær ritraðir: Lokaritgerðir til kandídats- og meistaraprófs hafa verið gefnar út í röðinni Málfræðirannsóknir og nokkur eldri grundvallarrit, sem lengi voru ófáanleg, í röðinni Rit um íslenska málfræði. Málvísindastofnun kom að útgáfu tímaritisins Tocharian and Indo-European Studies frá 1987 til 1992 og hefur einnig gefið út nokkuð af ráðstefnuritum.

Tímaritið Íslenskt mál og almenn málfræði er gefið út af Íslenska málfræðifélaginu í samvinnu við Málvísindastofnun. Í því eru birtar rannsóknagreinar og yfirlitsgreinar um öll svið íslenskrar og almennrar málfræði, auk umræðugreina og smágreina, ritdóma og ritfregna. Ritstjórar eru Haraldur Bernharðsson og Höskuldur Þráinsson. Félagar í Íslenska málfræðifélaginu eru áskrifendur að tímaritinu. Allir sem áhuga hafa á málfræði geta skráð sig.

Íslenskt mál er aðgengilegt á tímarit.is, nema fjórir síðustu árgangar.

Leiðbeiningar fyrir höfunda er að finna hér.

Hér er að finna fræðirit um samtímaleg og söguleg málvísindi, handbækur og kennslubækur sem Málvísindastofnun hefur gefið út utan ritraða sinna. 

 • Ari Páll Kristinsson: Handbók um málfar í talmiðlum
  Handbók um málfar í talmiðlum er einkum rituð með starfsmenn ljósvakamiðla í huga en getur líka nýst starfsmönnum annarra fjölmiðla, sem og hverjum þeim sem vill glöggva sig á góðri málnotkun.
 • Eiríkur Rögnvaldsson: Íslensk hljóðfræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi
  Í þessari bók er drepið á nokkra þætti hljóðeðlisfræði en aðaláherslan lögð á myndun og lýsingu íslenskra málhljóða, svo og hljóðritun. Einnig er talsvert fjallað um dreifingu hljóðanna, þ.e. við hvaða hljóðfræðilegar aðstæður þau geti komið fyrir. Þá er vikið að lengd, áherslu, brottföllum, samlögunum og fleiru þess háttar. Bókin er uppseld.
 • Eiríkur Rögnvaldsson: Íslensk hljóðkerfisfræði
  Þetta rit er einkum ætlað til kennslu á háskólastigi en er þó öðrum þræði fræðirit og styðst að talsverðu leyti við sjálfstæðar rannsóknir. Ritið skiptist í tvo meginhluta. Sá fyrri heitir Inngangur að hljóðkerfisfræði og þar er farið yfir ýmis grunnatriði hljóðkerfisfræðinnar. Sá seinni heitir Hljóðskipun og hljóðferli í íslensku og er yfirlit yfir dreifingu íslenskra málhljóða og helstu hljóðreglur málsins. Bókin er uppseld.
 • Eiríkur Rögnvaldsson: Íslensk orðhlutafræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi
  Í þessari bók er fjallað um beyginga- og orðmyndunarfræði (orðið orðhlutafræði nær yfir hvort tveggja, sbr. enska orðið morphology), þ.e. gerð orða og beygingu. Meginhluti bókarinnar fjallar um beygingar íslenskra orða en einnig er að finna skilgreiningar á grunnhugtökum orðhlutafræðinnar og ítarlega umfjöllun um hlutverk og eðli málfræðilegra formdeilda, s.s. falla, tíða o.s.frv. Þá er gefið yfirlit yfir íslenska orðmyndun, gerð grein fyrir helstu forskeytum og viðskeytum, merkingu þeirra og hlutverki. Einnig er drepið á helstu tegundir samsettra orða. Bókin er uppseld.
 • Eiríkur Rögnvaldsson: Hljóðkerfi og orðhlutakerfi íslensku. (Smellið hér til að nálgast bókina í rafrænni útgáfu).
 • Halldór Á. Sigurðsson: Verbal Syntax and Case in Icelandic. In a Comparative GB Approach
  Í bókinni er fjallað um tengsl fallmörkunar og setningarlegrar formgerðar í anda málkunnáttufræði. Kaflar bókarinnar nefnast: The sentence structure in V2 Germanic, Verb fronting, Case and government, Infinitivals, Case percolation, Nonlexical NPs and Case og Promotion, theta-selection and Case.
 • Halldór Halldórsson: Old Icelandic heiti in Modern Icelandic
  Bókin fjallar um heiti eins og titillinn gefur til kynna. Höfundur skoðar heiti í Snorra-Eddu og öðrum eldri skáldskap en hann segir fyrirbærið koma fyrst fyrir í Snorra-Eddu sem stíleinkenni, svo vitað sé. Þá er skoðað hvernig heitin koma fyrir í nýrra ritmáli og talmáli, bæði ein og sér og í samsettum orðum.
 • Helgi Guðmundsson: The Pronominal Dual in Icelandic
  Í þessari bók er fjallað um notkun, þróun og loks hvarf tvítölu í íslensku. Einnig er vikið að tvítölu í öðrum skyldum málum.
 • Helgi Haraldsson: Beygingartákn íslenskra orða. Nafnorð
  Höfundur setur fram hugmyndir sínar um kerfi beygingartákna til notkunar í orðabókum og orðalistum. Tilgangurinn er að spara rými en um leið að táknin séu sem „ræðust”, þ.e. að mönnum lærist fljótt að lesa úr þeim.
 • Hreinn Benediktsson: Linguistic Studies, Historical and Comparative
  Þessi bók hefur að geyma Fyrstu málfræðiritgerðina ásamt enskri þýðingu. Þá gerir Hreinn grein fyrir ritgerðinni, handritum sem hana geyma, aldri hennar, höfundi, hugmyndum sínum um stafsetningu, stafagerð og fleira. Enn fremur er ítarleg umfjöllun um hljóðkerfi elstu íslensku.
 • Hreinn Benediktsson: The First Grammatical Treatise
 • Höskuldur Þráinsson: Íslensk setningafræði. Nánari upplýsingar á vef Háskólaútgáfunnar.
 • Höskuldur Þráinsson: Skrifaðu bæði skýrt og réttNánari upplýsingar á vef Hákólaútgáfunnar.
 • Höskuldur Þráinsson, Hjalmar P. Petersen, Jógvan í Lon Jacobsen, Zakaris Svabo Hansen: Faroese: An Overview and Reference Grammar
  Í þessari bók má finna ítarlega lýsingu á öllum þáttum færeysks máls: framburði, stafsetningu, hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingum, orðmyndum, setningagerð, mállýskum og málsögu. Bókin er skrifuð sem handbók, en í henni er vísað í öll helstu skrif um færeyskt mál á undanförnum árum og áratugum. Þetta er önnur útgáfa, en hún er samhljóða fyrstu útgáfu að öðru leyti en því að villur hafa verið leiðréttar og bætt hefur verið við ritaskrána. Bókin fæst hjá Málvísindastofnun og kostar 4.900. Vinsamlegast sendið tölvupóst til mgu@hi.is.
 • Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson, Einar Freyr Sigurðsson (ritstj.): Tilbrigði í íslenskri setningagerð I: Markmið, aðferðir og efniviður
  Þetta verk á rót sína að rekja til samnefnds rannsóknaverkefnis sem hlaut styrk frá Rannsóknasjóði. Í þessu bindi er sagt frá markmiði verkefnisins og þeim aðferðum sem voru notaðar við söfnun og úrvinnslu efnis. Auk þess eru sérstakir kaflar um talmál og tilbrigði, þágufallshneigð (þágufallssýki) og tilbrigði í setningagerð í rituðum texta (ritgerðum grunnskólanema). Nánari upplýsingar á vef Háskólaútgáfunnar.
 • Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson, Einar Freyr Sigurðsson (ritstj.): Tilbrigði í íslenskri setningagerð II: Helstu niðurstöður - Tölfræðilegt yfirlit
  Í bókinni er greint frá niðurstöðum úr viðamiklu rannsóknaverkefni sem hlaut svonefndan Öndvegisstyrk frá Rannsóknasjóði 2005-2007. Eins og nafnið bendir til var markmið verkefnisins að kanna útbreiðslu og eðli helstu tilbrigða í setningagerð íslensks máls og fá þannig glögga vitneskju um það hvert þróunin stefndi. Fjölmörg atriði voru rannsökuð og sem dæmi má nefna þessi: orðaröð, fall andlags og frumlags (þar með talin svokölluð þágufallssýki), þolmynd (meðal annars nýja þolmyndin) og notkun framsöguháttar og viðtengingarháttar.
 • Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson, Einar Freyr Sigurðsson (ritstj.): Tilbrigði í íslenskri setningagerð II: Sérathuganir
  Nánari upplýsingar á vef Háskólaútgáfunnar.
 • Jón G. Friðjónsson: Forsetningar í íslensku
  Í þessari bók er gefið yfirlit yfir notkun forsetninga í íslensku og er lögð áhersla á að sýna dæmi en einnig reynt að kynna þær reglur og lögmál sem notkun forsetninga hvílir á. Fjöldi hagnýtra verkefna, ætluð útlendingum, eru í bókinni.
 • Jón G. Friðjónsson: Samsettar myndir sagna
  Í þessari bók er fjallað um flokkun sagna (sterkar, veikar, óreglulegar) og beygingarmyndir þeirra (persónu, tölu, hætti, tíðir og myndir). Megináherslan er þó lögð á samsettar myndir sagna með hjálparsögnum, þolmynd og horf. Rík áhersla er lögð á notkunardæmi. Í viðaukum með bókinni er að finna kennimyndir flestra sterkra og óreglulegra sagna og yfirlit yfir kennimyndir veikra sagna. Bókin er uppseld.
 • Jón Magnússon: Grammatica Islandica – Íslenzk málfræði
  Í ritinu birtist í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu ein merkasta heimildin um íslenskt mál á 18. öld og hugmyndir manna á þeim tíma um lýsingu tungunnar. Höfundurinn, Jón Magnússon prestur og sýslumaður, bróðir Árna Magnússonar prófessors, var með lærðustu mönnum þjóðarinnar á sinni tíð, en ógæfusamur í einkalífi. Málfræðibókina ritaði hann á efri árum, þá dæmdur frá eignum og embættum. Latneskur texti höfundarins er hér birtur ásamt íslenskri þýðingu Jóns Axels Harðarsonar málfræðings, ítarlegum inngangi um ritið og ævi höfundar og athugasemdum við málfræðitextann. Auk málfræði- og málsögulegs gildis ritsins er umfjöllun Jóns Axels um stórmerka ævi höfundar einnig fróðleg fyrir alla sem hafa áhuga á íslenskri sögu á 18. öld. Háskólaútgáfan annast dreifingu bókarinnar (hu@hi.is).
 • Kristján Árnason: The Rhythms of Dróttkvætt and other Old Icelandic Metres
  Rannsókn á hrynjandi dróttkvæðs háttar og annarra forníslenskra bragarhátta.
  Bragarhættirnir eru athugaðir í ljósi nýlegra kenninga í hljóðkerfisfræði og bragfræði og setur höfundur fram nýja hugmynd að greiningu á hrynjandi dróttkvæðs háttar. Auk þess er fjallað um tengsl dróttkvæðs háttar við aðra norræna bragarhætti og hugsanleg erlend áhrif, m.a. frá Írum. Hugvísindastofnun annast dreifingu bókarinnar (hugvis@hi.is).
 • Kristján Árnason, Stephen Carey, Tonya Kim Dewey, Haukur Þorgeirsson, Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Þórhallur Eyþórsson (ritstj.): Approaches to Nordic and Germanic Poetry. Nánari upplýsingar á vef Háskólaútgáfunnar.
 • Magnús Snædal: Gotneskur orðstöðulykill (A Concordance to Biblical Gothic). Nánari upplýsingar á vef Háskólaútgáfunnar.
 • Sigurður Jónsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson og Höskuldur Þráinsson: Mállýskudæmi
  Bók og snælda. Í bókinni er íslenskum framburðarmállýskum lýst og sagt frá því hvar þær er (og í sumum tilfellum var) helst að finna. Þá eru í bókinni textar sem koma fyrir á samnefndri snældu og hljóðrituð dæmi af snældunni. Á snældunni lesa 16 Íslendingar, víðs vegar að af landinu, texta eða textabúta sem eru prentaðir og hljóðritaðir í bókinni. Öll staðbundin mállýskueinkenni íslenskunnar koma fyrir á snældunni. Hver málhafi er kynntur og bent á þau framburðaratriði í máli hans sem eftirtektarverð eru þannig að hægt er að nota snælduna án bókarinnar ef vill. Hugvísindastofnun annast dreifingu bæði bókar og snældu (hugvis@hi.is).
   

Fjölmargar bækur hafa verið gefnar út sem sérstaklega eru sniðnar að þörfum þeirra sem læra íslensku sem annað mál. Þessar bækur eru margar hverjar sprottnar upp úr kennslu á íslensku sem öðru máli og eru m.a. notaðar við slíka kennslu í Háskóla Íslands.

 • Ari Páll Kristinsson: The Pronunciation of Modern Icelandic.
  Þetta er kennslubók í framburði, sniðin að þörfum útlendinga. Tekið er mið af stafsetningu og farið yfir hvaða hljóð hver bókstafur getur staðið fyrir. Þá er sérstaklega hugað að atriðum sem reynslan sýnir að eru erfið útlendingum. Í bókinni eru 56 æfingar þar sem framburður einstakra orða og setninga er sýndur með hljóðritun sem hefur verið löguð lítillega að stafsetningu til einföldunar.
 • Ari Páll Kristinsson: The Pronunciation of Modern Icelandic (Snælda).
  Á þessari snældu er að finna sömu æfingar og í bókinni The Pronunciation of Modern Icelandic. Orðin eru lesin og nemendum gefið tóm til að hafa þau eftir.
 • Ásta Svavarsdóttir: Æfingar með enskum glósum og leiðréttingalyklum við bókina Íslenska fyrir útlendinga
  Í þessari bók eru æfingar til að þjálfa nemendur í þeim atriðum í beygingum og setningagerð íslensku sem fjallað er um í Íslensku fyrir útlendinga. Æfingaheftið skiptist í fjóra hluta og hver þeirra í sex kafla eins og kennslubókin þannig að samhliða notkun er mjög auðveld. Í bókinni er íslenskt-enskt orðasafn.
 • Ásta Svavarsdóttir og Margrét Jónsdóttir: Íslenska fyrir útlendinga. Kennslubók í málfræði
  Þetta er kennslubók í málfræði fyrir útlendinga, einkum byrjendur en höfundar hafa mikla reynslu af kennslu þeirra. Bókin skiptist í fjóra hluta sem hver um sig skiptist í sex kafla. Í bókinni er tekið á ýmsum grundvallaratriðum í beygingum og setningagerð í íslensku nútímamáli. Þar sem bókin er ætluð byrjendum er megináherslan lögð á það sem er almennt og reglulegt. Bókin kom fyrst út 1988 en höfundar hafa endurskoðað hana í ljósi reynslunnar og kom 3. útgáfa út árið 2009.
 • Jón G. Friðjónsson: Forsetningar í íslensku
  Í þessari bók er gefið yfirlit yfir notkun forsetninga í íslensku og er lögð áhersla á að sýna dæmi en einnig reynt að kynna þær reglur og lögmál sem notkun forsetninga hvílir á. Fjöldi hagnýtra verkefna, ætluð útlendingum, eru í bókinni.
 • Jón G. Friðjónsson: Íslenskir leskaflar með skýringum, málfræði, setningafræði og æfingum
  Í bókinni eru 20 leskaflar þar sem athygli nemenda er vakin á ýmsum atriðum með feitletrunum. Hverjum leskafla fylgir skýringakafli þar sem þessi atriði eru tekin fyrir. Orð eru greind í flokka, sterka/veika beygingu o.s.frv. og merking þeirra gefin. Hver leskafli er svo notaður til að lýsa og æfa ýmis atriði í beygingum og setningagerð. Fjölmargar æfingar eru í bókinni.
 • Jón Gíslason og Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir: Landsteinar. Textabók í íslensku fyrir útlendinga
  Ritið er skrifað fyrir erlenda nemendur sem leggja stund á íslensku við Háskóla Íslands og ætlað þeim sem hafa lokið u.þ.b. einu misseri þar eða samsvarandi námi. Reynt var að safna í ritið fjölbreyttu efni sem gæti aukið við þekkingu nemenda á landi og þjóð. Margir textanna eru nýlegir, s.s. blaðagreinar, ljóð og bókarkaflar, en auk þess eru sýnishorn af textum frá ýmsum tímum, textabrot á fornmáli, ljóð, þjóðsögur o.fl. Ritinu er skipt í sex kafla sem bera nöfn landshluta og valdir voru textar sem tengdust á einhvern hátt viðkomandi landshluta. Í ritinu eru ýmist frumsamdir textar eða aðfengnir en auk þeirra er nokkuð ítarleg umfjöllun um helstu þætti orðmyndunar.
 • Jón Gíslason og Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir: Málnotkun
  Þetta er textabók, ætluð byrjendum í íslensku. Áhersla er lögð á að auka orðaforða og tilfinningu fyrir málinu. Í bókinni eru samtöl, stuttir textar og verkefni í tengslum við þá, enn fremur margar myndir og æfingar sem tengjast þeim. Þá er lítillega vikið að orðmyndun. Í bókinni er talsvert af enskum glósum.
 • Jón Gíslason, Katrín Axelsdóttir, Kolbrún Friðriksdóttir, María Garðarsdóttir, Sigríður D. Þorvaldsdóttir (ritstjórar): Sagnasyrpa.
  Sögur á íslensku ásamt orðskýringum og verkefnum.
 • Jón Hilmar Jónsson: Islandsk grammatikk for utlendinger
  Í þessari bók er fjallað um beygingu fallorða og sagna. Þá er notkun töluorða skýrð, sem og notkun hjálparsagna og samtenginga. Farið er í fallstjórn forsetninga og mörg notkunardæmi sýnd. Þá er fjallað um framburð.
 • Jón Hilmar Jónsson: Øvelseshefte i islandsk grammatikk for utlendinger.
  Í þessari bók eru æfingar með Islandsk grammatikk for utlendinger eftir sama höfund og er vísað til viðeigandi kafla í henni við hverja æfingu. Bókin er uppseld.
 • Margrét Jónsdóttir: Æfingar ásamt frönsku, sænsku og þýsku orðasafni og svörum við æfingum við bókina Íslenska fyrir útlendinga
  Í þessari bók eru æfingar til að þjálfa nemendur í þeim atriðum í beygingum og setningagerð íslensku sem fjallað er um í Íslensku fyrir útlendinga. Æfingaheftið skiptist í fjóra hluta og hver þeirra í sex kafla eins og bókin þannig að samhliða notkun er mjög auðveld. Í bókinni eru þrjú orðasöfn: íslenskt - franskt, íslenskt - sænskt og íslenskt - þýskt.
 • María Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir: Hljóð og hlustun
 • Svavar Sigmundsson: 52 æfingar í íslensku fyrir útlendinga með lausnum
  Æfingar þær sem hér birtast eru ætlaðar útlendingum sem náð hafa verulegum tökum á íslensku máli. Þær eru til orðnar við kennslu á 2. ári í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands. Æfingarnar eru ætlaðar til að þjálfa ýmis atriði beygingafræði, notkun forsetninga, myndun þolmyndar/verknaðarmyndar, óbeinnar ræðu o.fl. Þær eru ekki tengdar neinni kennslubók og má nota algerlega sjálfstætt. Æfingarnar byggjast á eyðufyllingu.
 • Svavar Sigmundsson: Textar í íslensku fyrir erlenda stúdenta
  Í þessari bók eru 28 textar og samtöl til að æfa lestur, málnotkun og skilning. Í textunum er að finna ýmsar hagnýtar og fræðandi upplýsingar. Á eftir hverjum texta eru sýndar kennimyndir þeirra sagna sem ekki hafa komið fyrir áður og í bókarlok er yfirlit yfir sagnirnar og kennimyndir þeirra í stafrófsröð. Enn fremur eru orðskýringar á eftir hverjum texta og íslenskt-enskt orðasafn í bókarlok. Bókin er uppseld.
   

Í ritröðinni Málfræðirannsóknir hafa einkum verið gefnar út kandídats- og meistararitgerðir í málvísindum. Hugvísindastofnun annast dreifingu bókanna (hugvis@hi.is).

 • 1. bindi: Friðrik Magnússon: Kjarnafærsla og það-innskot í aukasetningum í íslensku.
  Uppistaðan í þessari bók er umfjöllun um kjarnafærslu og það-innskot í íslensku. Höfundur tínir til mikinn fjölda dæma og setur þau í fræðilegt samhengi. Höfundur vinnur í anda málkunnáttufræðinnar og gerir grein fyrir henni og X'-liðgerðinni í upphafi bókar. Enn fremur fjallar hann um orðaröð í íslensku og skyldum málum og leiðir til að lýsa henni. 
 • 2. bindi: Eiríkur Rögnvaldsson: Um orðaröð og færslur í íslensku.
  Helstu færsluummyndanir í íslensku eru meginviðfangsefni höfundar þessarar bókar. Í upphafi gerir hann grein fyrir grunngerð íslenskra setninga en síðan víkur sögunni að færslum; kjarnafærslu, fráfærslu, frestun óákveðins frumlags og frestun þungs nafnliðar. Þá fjallar höfundur um hlutverk færslna og hömlur á þeim. 
 • 3. bindi: Sigríður Sigurjónsdóttir: Spurnarsetningar í máli tveggja íslenskra barna.
  Hér segir frá rannsókn á þróun spurnarsetninga í máli tveggja íslenskra barna frá tveggja ára aldri til þriggja og hálfs árs. Niðurstöður eru fjölþættar en m.a. kemur fram að fyrstu spurningar íslenskra barna byrja á orðinu viltu og að þær gegna flestar hlutverki beiðna.
 • 4. bindi: Pétur Helgason: On Coarticulation and Connected Speech Processes in Icelandic.
  Í þessari bók er fjallað um framburð samfellds tals, þ.e. samlaganir og brottföll sem eiga sér stað.
 • 5. bindi: Ásta Svavarsdóttir: Beygingakerfi nafnorða í nútímaíslensku.
  Ritið fjallar um beygingakerfi nafnorða í nútímamáli og skiptist í fjóra meginkafla auk inngangs og niðurlags. Í þessum köflum er m.a. fjallað um lykilhugtök í beygingafræði: formdeild, myndan, mörkun og eðlileika. Fjallað er um mismunandi lýsingar á beygingakerfi íslenskra nafnorða og sett fram tillaga um nýja beygingarflokkun. Að lokum er greint frá framkvæmd og niðurstöðum athugunar sem höfundur gerði á tíðni og stærð beygingarflokka.
 • 6. bindi: Þóra Björk Hjartardóttir: Getið í eyðurnar. Um eyður fyrir frumlög og andlög í eldri íslensku.
  Bókin fjallar um eyður fyrir frumlög og andlög í eldri íslensku. Í fyrsta kaflanum er viðfangsefnið skilgreint og fjallað um val á athugunartextum. Í öðrum kaflanum eru til umræðu þrjár kenningar eða tilgátur um eðli og gerð núlliða. Í þriðja kafla koma fyrir niðurstöður úr dæmasöfnun höfundar þar sem dreifing og notkun núlliða er sett fram. Í fjórða kafla er kenning Chomskys og Rizzis um núllliði tekin til athugunar og mátuð við íslensku. Í fimmta kafla setur höfundur fram hagnýta (fúnksjónal) hugmynd um reglur um núllliði í eldri íslensku.
 • 7. bindi: Halldór Ármann Sigurðsson: Um frásagnarumröðun og grundvallarorðaröð í forníslensku ásamt nokkrum samanburði við nútímamál
  Meginviðfangsefni bókarinnar er eitt umræddasta einkenni forníslenskrar setningaskipunar, sögn í persónuhætti sem kemur fyrir fremst í fullyrðingarsetningu sem jafnframt hefur frumlag. Einnig gerður samanburður á frásagnarumröðun og grundvallarumröðun í forníslensku við nútímamál.
 • 8. bindi: Guðvarður Már Gunnlaugsson: Um afkringingu á /y, ý, ey/ í íslensku.
  Ritið fjallar um samfall y, ý, ey annars vegar og i, í, ei hins vegar. Raktar eru kenningar og hugmyndir fyrri fræðimanna um þessa hljóðbreytingu en meginhluti ritsins fjallar um rannsókn höfundar á Íslensku fornbréfasafni. Rannsökuð voru öll fornbréf frá tímabilinu 1450 til 1570 og einnig var athugað hvort útgefendur handrita sem skrifuð voru á 15. öld.
 • 9. bindi: Þorsteinn G. Indriðason: Regluvirkni í orðasafni og utan þess. Um lexíkalska hljóðkerfisfræði íslensku.
  Ritið fjallar um samband hljóðkerfisfræði við orðhlutafræði og setningafræði í anda nýlegrar kenningar sem gengið hefur undir nafninu „lexical phonology”. Kenningin felur í stuttu máli í sér að skipta megi málfræði hvers tungumáls í orðasafn (lexicon) og það sem utan þess er (syntax). Enn fremur er gert ráð fyrir því að orðasafnið sé lagskipt og að í lögunum verki saman orðhluta- og hljóðkerfisreglur samkvæmt ákveðnum lögmálum. Höfundur gefur fyrst yfirlit um helstu þætti kenningarinnar með nokkrum samanburði við eldri kenningar um hljóðkerfisfræði en prófar hana síðan á valin efni úr íslensku. Hann rannsakar m.a. hljóðkerfisleg tengsl viðskeyta og róta, beygingarendinga og stofns, nafnorðs og greinis, svo og fyrri og seinni hluta samsettra orða. Í ljósi niðurstaðna úr þessum rannsóknum setur höfundur fram tilgátu um lagskipt orðasafn í íslensku. Enn fremur er að finna í ritinu ítarlega rannsókn á virkni hljóðkerfisreglna í íslensku og umfjöllun um samband hljóðkerfisfræði og setningafræði.
 • 10. bindi: Þorbjörg Hróarsdóttir: Setningafræðilegar breytingar á 19. öld. Þróun þriggja málbreytinga.
 • 11. bindi: Haraldur Bernharðsson: Málblöndun í sautjándu aldar uppskriftum íslenskra miðaldahandrita.
  Í bókinni eru sautjándu aldar uppskriftir íslenskra miðaldahandrita skoðaðar sem málheimild. Nokkrar slíkar uppskriftir eru skoðaðar í samanburði við forrit uppskriftanna sem varðveist hafa. Samanburðurinn er þannig notaður til að skoða hversu mikið sautjándu aldar skrifarar löguðu mál fornra texta að sínu máli og skoðað hvaða þáttum eldri málstiga þeir höfnuðu og færðu til sautjándu aldar horfs.

Málvísindastofnun hefur gefið út nokkur grundvallarrit um íslenska málfræði sem komu fyrst út á fyrri hluta 20. aldar en voru lengi ófáanleg. Hugvísindastofnun annast dreifingu bókanna (hugvis@hi.is).

 • Björn K. Þórólfsson: Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld. Bókin kom fyrst út árið 1925 og hefur reynst ómetanleg handbók um íslenska málsögu, einkum beygingafræði. Málvísindastofnun gaf út ljósprentaða útgáfu í ritröðinni Rit um íslenska málfræði árið 1987.
 • Jakob Jóh. Smári: Íslenzk setningafræði. Bókin, sem kom fyrst út árið 1920, er skrifuð í anda „klassískrar“ eða hefðbundinnar setningafræði. Hún geymir mikinn fróðleik um íslenska setningafræði, bæði vegna þess að höfundur hefur safnað fjölda dæma úr íslensku máli og einnig vegna þess að hann hefur haft glöggt auga fyrir því hvað væri athyglisvert og forvitnilegt í setningafræði málsins. Í bókinni er atriðisorðaskrá sem auðveldar lesendum að finna það sem þeir leita að. Málvísindastofnun gaf út ljósprentaða útgáfu í ritröðinni Rit um íslenska málfræði árið 1987.
 • Jón Helgason: Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Bókin kom fyrst út árið 1929 og var endurútgefin hjá Málvísindastofnun árið 1999 í ritröðinni Rit um íslenska málfræði. Hún hafði þá lengi verið ófáanleg en hana má telja grundvallarrit um íslenska málsögu síðari alda. Endurútgáfan er ljósprentuð eftir frumútgáfunni frá 1929. Í bókinni fjallar Jón í fjórum þáttum um málið á hinu merka tímamótaverki Odds Gottskálkssonar frá 1540, fyrstu bók sem prentuð var á íslensku og sem Guðbrandur biskup Þorláksson tók upp í Biblíu sína 1584. Í fyrsta þætti fjallar Jón um stafsetningu Odds og ýmis atriði sem tengjast prentuninni, stafagerð og því um líkt. Í öðrum þætti fjallar hann um orðmyndir og gerir grein fyrir hverjum orðflokki fyrir sig. Í þriðja þætti eru setningar til umfjöllunar og í fjórða þætti er loks fjallað um heimildir Odds og fyrirmyndir. Í bókinni er einnig ítarlegt orðasafn í stafrófsröð. Bókin er kilja en hægt að fá óskorin eintök hjá Málvísindastofnun fyrir þá sem kynnu að vilja láta binda
 • Valtýr Guðmundsson: Islandsk Grammatik. Þetta er handbók um beygingafræði íslensks nútímamáls og kom fyrst út árið 1922. Dæmin eru mjög mörg og flokkuð ítarlega. Málvísindastofnun gaf út ljósprentaða útgáfu í ritröðinni Rit um íslenska málfræði árið 1983.

 • Papers from the Seventh Scandinavian Conference of Computational Linguistics.
  Ritið var gefið út 1990 og inniheldur 30 erindi sem flutt voru á ráðstefnunni sem getur um í titli og haldin var í Reykjavík 1989. Ritstjórar: Jörgen Pind og Eiríkur Rögnvaldsson. Ritið skiptist í þrjá hluta; Morphology, Syntax and Discourse analysis; Machine Translation; Computational Lexicography. 

  The Volume is a collection of papers that were read at the Seventh Scandinavian Conference of Computational Linguistics (Nordiska Datalingvistikdage) and the Symposium on Computational Lexicography and Terminology in Reykjavík, June 26th-28th, 1989. The papers deal with all aspects of computational linguistics and lexicography in the Nordic countries. The book is divided into three parts, containing a total of 30 papers. The three parts are Morphology, Syntax and Discourse analysis; Machine Translation; and Computational Lexicography.

 • Papers from the Twelfth Scandinavian Conference of Linguistics.
  Ritið var gefið út 1991 og inniheldur 39 erindi frá 12. norrænu málvísindaráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík í júní 1990. Ritstjóri: Halldór Ármann Sigurðsson. Aðstoðarritstjórar: Þorsteinn G. Indriðason og Eiríkur Rögnvaldsson. Ritið er uppselt.

  The volume contains a collection of 39 papers from the Twelfth Scandinavian Conference of Linguistics that was held in Reykjavík, June 14th-16th, 1990. The volume was published in Reykjavík 1991 by the Linguistic Institute of the University of Iceland. Editor: Halldór Ármann Sigurðsson. Associate editors: Þorsteinn G. Indriðason and Eiríkur Rögnvaldsson.

 • The Nordic Languages and Modern Linguistics 10. Proceedings of the Tenth International Conference of Nordic and General Linguistics
  Í ritinu eru erindi frá ráðstefnunni The Tenth International Conference of Nordic and General Linguistics sem haldin var í Háskóla Íslands 6.-8. júní 1998. Guðrún Þórhallsdóttir ritstýrði ráðstefnuritinu. Í ritnefnd sátu einnig Eiríkur Rögnvaldsson, Höskuldur Þráinsson, Magnús Snædal og Þóra Björk Hjartardóttir.
   
 • Útnorður. West Nordic Standardisation and Variation.

 • Volume 1. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu og gaf út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1987. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku.
 • Volume 2. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu og gaf út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1988. Ritið inniheldur greinar frá vinnustofu um Tocharian sem haldin var í Leiden 5. september 1987. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 220 bls. ISSN 1012-9286
 • Volume 3. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu og gaf út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1989. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 220 bls. ISSN 1012-9286
 • Volume 4. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu og gaf út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1990. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 202 bls. ISSN 1012-9286
 • Volume 5. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu og gaf út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1991. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 183 bls. ISSN 1012-9286
 • Volume 6. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu og gaf út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1993. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku.
 • Supplementary Series, Volume 1The Dual Forms of Nouns and Pronouns in Tocharian. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu sem var gefið út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1989. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 166 bls. ISSN 1015-4434
 • Supplementary Series, Volume 2Die Erscheinungsformen des Westtocharischen. Ihre Beziehung zueinander und ihre Funktionen. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu sem var gefið út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1990. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 170 bls. ISSN 1015-4434.
 • Supplementary Series, Volume 3The Nasal Prefixes in Tocharian. A Study in Word Formation. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu sem var gefið út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1991. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 219 bls. ISSN 1015-4434.
 • Supplementary Series, Volume 4Tocharisch. Akten der Fachtagung der Indogermanischen Gesellschaft Berlin, September 1990. Ritið inniheldur erindi af ráðstefnunni Fachtagung der Indogermanischen Gesellschaft sem haldin var í Berlín í september 1990. Ritið kom út árið 1994 í minningu Jörunds Hilmarssonar (1946-1992). Ritstjóri verksins er Bernfried Schlerath en Jörundur Hilmarsson og Guðrún Þórhallsdóttir ritstýrðu ritaröðinni. 426 bls. ISSN 1015-4434.
 • Supplementary Series, Volume 5Materials for a Tocharian Historical and Etymological dictionary. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu sem var gefið út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1996. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 246 bls. ISSN 1015-4434.
 • Supplementary Series, Volume 6. Jörundur Hilmarsson ritstýrði ritinu sem var gefið út í samstarfi við Málvísindastofnun árið 1993. Greinar í ritröðinni eru á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. 205 bls. ISSN 1012-9286.