Árbók Háskóla Íslands 2008
Stjórn og starfsmenn
Áslaug J. Marinósdóttir gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá stofnuninni til 1. desember. Sigríður Sigurjónsdóttir var forstöðumaður stofnunarinnar og Jóhannes Gísli Jónsson fulltrúi kennara í stjórninni. Bjarki M. Karlsson hætti störfum sem fulltrúi stúdenta í stjórninni og Solveig Brynja Grétarsdóttir var kosin í hans stað. Sigríður var fulltrúi Málvísindastofnunar í stjórn Hugvísindastofnunar. Á ársfundi stofnunarinnar í byrjun maí 2008 var ákveðið að breyta áherslum í starfseminni, hætta að bjóða upp á prófarkalestur en leggja áherslu á fræðilegt hlutverk stofnunarinnar. Í ljósi þess að verulegur hluti starfs framkvæmdastjóra hefur falist í prófarkalestri var starfið lagt niður. Stjórnin fær því aukið hlutverk, en hún nýtur liðsinnis verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar. Stofnunin flutti úr Nýja Garði í Gimli, þar sem hún hefur skrifstofu sem ætluð er tveimur fræðimönnum.
Útgáfumál
Útgáfa og bóksala hefur verið snar þáttur í starfi Málvísindastofnunar um langt árabil. Í kennslu í íslensku fyrir útlendinga við Íslensku- og menningardeild er að verulegu leyti stuðst við bækur sem stofnunin hefur gefið út. Meðal útgáfurita eru einnig kandídatsritgerðir í málfræði og klassísk rit um íslenska málfræði sem voru lengi vel ófáanleg. Málvísindastofnun gaf ekki út nýjar bækur á árinu en eftirfarandi bækur voru endurprentaðar:
- Ásta Svavarsdóttir: Æfingar með enskum glósum og leiðréttingalyklum við bókina Íslenska fyrir útlendinga
- Ari Páll Kristinsson: Pronunciation af Modern Icelandic
- Svavar Sigmundsson: 52 æfingar í íslensku fyrir útlendinga
- Jón Hilmar Jónsson: Islandsk grammatikk for utlendinger
Ráðstefnur og fyrirlestrar
Rask-ráðstefnan
Eins og undanfarin ár héldu Málvísindastofnun og Íslenska málfræðifélagið saman 22. Rask-ráðstefnuna í janúar 2008. Alls héldu 13 fræðimenn erindi á ráðstefnunni sem var fjölsótt og þótti takast mjög vel.
Vinnufundur um setningafræðirannsóknir
Dagana 26.–28. maí hélt Málvísindastofnun vinnufund svipaðan þeim sem haldinn var vorið 2007 um mögulega samvinnu setningafræðinga frá ýmsum löndum. Erlendir þátttakendur voru styrktir af National Science Foundation í Bandaríkjunum og komu frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Sérstaklega var hugað að samvinnu Íslendinga og erlendu þátttakendanna um máltöku barna, setningafræðilega greiningu forntexta og félagsfræðilega greiningu á íslenskum gögnum sem safnað hefur verið í tengslum við öndvegisverkefnið „Tilbrigði í setningagerð“.
Ráðstefna um bragfræði
Málvísindastofnun stóð ásamt fleiri aðilum að norrænni og alþjóðlegri ráðstefnu um bragfræði dagana 18.-21. júní. Ráðstefnan var haldin í Reykholti undir yfirskriftinni Greinir skáldskapar - The Branches of Poetry. Lykilfyrirlesarar komu víða að, en þeir voru:
- Kristján Árnason, Háskóla Íslands,
- Þórhallur Eyþórsson, Háskóla Íslands,
- Nigel Fabb, Strathclyde-háskóla,
- Sissel Furuseth, NTNU í Þrándheimi,
- Chris Golston, Ríkisháskóla Kaliforníu í Fresno,
- Paul Kiparsky, Stanford-háskóla,
- Eva Lilja, háskólanum í Gautaborg,
- Guðrún Nordal, Háskóla Íslands,
- Tomas Riad, Stokkhólmsháskóla og rannsóknarfélagi í Sænsku akademíunni
Um 35 ráðstefnugestir dvöldu í Reykholti í góðu yfirlæti og allmargir Íslendingar sóttu að auki hluta ráðstefnunnar. Fyrirlestrar fjölluðu almennt um bragform og ljóð frá bókmenntalegu og málfræðilegu sjónarhorni. Ráðstefnugestir lýstu yfir mikilli ánægju með ráðstefnuna og töldu að slóðir Snorra gæfu fræðilegri umræðu um bragfræði byr undir vængi. Fyrirlestrar frá ráðstefnunni verða gefnir út hjá forlaginu Peter Lang. Annar afrakstur ráðstefnunnar er rannsóknarsamstarf sem nú er hafið milli íslenskra og erlendra málfræðinga og bragfræðinga.
Málþing í minningu Konráðs Gíslasonar
Í október héldu Málvísindastofnun og Íslenska málfræðifélagið málþing í tilefni þess að á árinu voru liðin 200 ár frá fæðingu Konráðs Gíslasonar málfræðings og Fjölnismanns. Sjö fræðimenn fluttu erindi um ævi og málfræðistörf Konráðs. Var málþingið fjölsótt og tók Ríkisútvarpið ráðstefnuna upp á band til að flytja frá henni valda kafla í þættinum Í heyranda hljóði á rás 1.
Ráðstefna um tal- og málmein
Í nóvember hélt stofnunin ráðstefnu um tal- og málmein í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, Félag talkennara og talmeinafræðinga og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Tíu fræðimenn fjölluðu um viðfangsefnið frá fjölbreyttu sjónarhorni og var ráðstefnan vel sótt og þótti heppnast vel.
Cultures in translation
Dagana 4.–6. desember stóð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir ráðstefnunni Cultures in translation í samvinnu við Málvísindastofnun, Mannfræðistofnun og Alþjóðahúsið. Ráðstefnan er hluti af alþjóðlegri ráðstefnuröð norrænu samtakanna Nordic Network for Intercultural Communication - NIC. Dr. Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun, annaðist skipulag málstofunnar The Glory of Babel: Celebrating diversity in languages and linguistics. Markmið málstofunnar var að leiða saman fræðimenn með ólíka nálgun á margbreytileika, bæði í mannlegu máli og málvísindum. Í málstofunni voru fluttir 18 fyrirlestrar af erlendum og innlendum fræðimönnum. Erlendu fyrirlesararnir voru víðs vegar að, þar á meðal hinir þekktu málfræðingar Werner Abraham og Elisabeth Leiss, prófessorar í München. Boðsfyrirlesari í Babels-málstofunni var Jorunn Hetland, prófessor í NTNU-háskólanum í Þrándheimi. Það var mál manna að málstofan hefði heppnast sérlega vel, eins og ráðstefnan í heild.
Fyrirlestrar
Í júní flutti Paul Kiparsky, prófessor við málvísindadeild Stanfordháskóla, fyrirlestur í boði Málvísindastofnunar, Íslenska málfræðifélagsins og Hugvísindadeildar Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn nefndist Syncope, umlaut, and prosodic structure in early Germanic.
Í september hélt Cherlon Ussery, doktorsnemi við University of Massachusetts, fyrirlestur sem nefndist Case in Syntax, Agreement in PF á vegum Málvísindastofnunar og Íslenska málfræðifélagsins.
Rannsóknir
Innan Málvísindastofnunar starfa málfræðingar í íslensku, almennum málvísindum og táknmálsfræði. Þeir vinna að fjölbreyttum rannsóknum og fengu árið 2008 fjölmarga styrki úr Rannsóknasjóði og Rannsóknasjóði Háskólans. Rannsóknarstyrkir skapa ekki síst tækifæri til að veita nemendum þjálfun. Vinnu við öndvegisverkefnið „Tilbrigði í setningagerð“, sem Höskuldur Þráinsson prófessor stjórnaði, lauk að mestu á árinu, en annað verkefni, „Tilbrigði í færeyskri setningagerð“, hófst. Á grundvelli Rannís-styrkja var einnig unnið að rannsókn á bragkerfi, hljóðkerfi og setningakerfi í eddukvæðum undir stjórn Kristjáns Árnasonar prófessors og Jón Axel Harðarson prófessor fékk styrk til rannsókna á hljóðkerfis- og beygingarfræði forníslensku. Þá unnu Jóhannes Gísli Jónsson aðjunkt og Eiríkur Rögnvaldsson prófessor áfram að rannsóknum sem hlutu framhaldsstyrki hjá Rannís. Jóhannes Gísli stýrði verkefni um sagnflokka og táknun rökliða en Eiríkur vann að samhengisháðri ritvilluleit. Þessu til viðbótar unnu aðilar að Málvísindastofnun meðal annars að rannsóknum á málfræðilegu kyni, íslensku á 19. öld, tengslum atkvæðagerðar og beygingar nafnorða, þolmynd í máli barna og málfræðilegri mörkun, en verkefnin fengu öll styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Dr. Tania Strahan, málfræðingur frá Ástralíu, dvaldi við rannsóknir hér á landi og hafði aðstöðu hjá Málvísindastofnun. Sömuleiðis dr. Þórhallur Eyþórsson sem hefur tekið þátt í rannsóknum ýmissa fræðimanna innan Málvísindastofnunar.