Árbók Háskóla Íslands 2010

Stjórn

Sigríður Sigurjónsdóttir var forstöðumaður stofnunarinnar og Solveig Brynja Grétarsdóttir var fulltrúi stúdenta í stjórninni. Á ársfundi stofnunarinnar í byrjun apríl 2009 hætti Jóhannes Gísli Jónsson störfum sem fulltrúi kennara í stjórninni og Höskuldur Þráinsson var kosinn í hans stað. Stjórnin hefur í störfum sínum notið liðsinnis verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar. Sigríður var fulltrúi Málvísindastofnunar í stjórn Hugvísindastofnunar. Stofnunin hefur skrifstofu í Gimli sem ætluð er tveimur fræðimönnum. Þar höfðu aðstöðu dr. Tania E. Strahan, málfræðingur frá Ástralíu og styrkþegi norræna öndvegissetursins NORMS, og dr. Þórhallur Eyþórsson, verkefnisstjóri rannsóknarinnar Samspil bragkerfis, hljóðkerfis og setningagerðar sem fékk í ársbyrjun styrk frá Rannsóknasjóði Íslands til þriggja ára.

Útgáfumál

Um langt árabil hefur útgáfa og bóksala verið snar þáttur í starfi Málvísindastofnunar. Gefnar hafa verið út kennslu- og handbækur í málfræði, ekki síst ætlaðar nemendum í íslensku fyrir útlendinga við Íslensku- og menningardeild þar sem stuðst er við bækur stofnunarinnar að verulegu leyti. Meðal útgáfurita eru einnig ýmis fræðirit um samtímalega og sögulega málfræði, kandídatsritgerðir og klassísk rit um íslenska málfræði sem voru lengi vel ófáanleg. Stofnunin hóf samstarf við Háskólaútgáfuna árið 2009 um dreifingu bókanna. Tvær bækur komu út í nýrri útgáfu á árinu: 

Einnig voru endurprentaðar þrjár bækur:

Ráðstefnur og fyrirlestrar

Rask-ráðstefnan
Eins og undanfarin ár héldu Málvísindastofnun og Íslenska málfræðifélagið saman 23. Rask-ráðstefnuna í janúar 2009. Alls héldu 13 fræðimenn erindi á ráðstefnunni. Ráðstefnan þótti takast vel og var fjölsótt.

Ráðstefna um afturbeygð fornöfn
Dagana 24.–25. apríl stóð Málvísindastofnun ásamt norræna öndvegissetrinu NORMS að norrænni og alþjóðlegri ráðstefnu um afturbeygð fornöfn. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Eric Reuland, prófessor við Málvísindastofnunina í Utrecht í Hollandi, en 8 aðrir fyrirlesarar sem komu víða að fluttu erindi á ráðstefnunni.

Árleg ráðstefna bandarískra samanburðarmálfræðinga (ReykIEC)
Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í Íslensku- og menningardeild, hélt í samvinnu við Málvísindastofnun 28. ráðstefnuna í röðinni „East Coast Indo-European Conference“ við Háskóla Íslands dagana 10.-14. júní 2009. Alls héldu 23 fræðimenn frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Japan og Íslandi erindi og lýstu gestir yfir mikilli ánægju með ráðstefnuna sem þótti takast mjög vel.

Ráðstefna til heiðurs Joan Maling
Í tilefni af því að Joan Maling, prófessor emeritus við Brandeis-háskóla í Bandaríkjunum, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Íslensku- og menningardeild hinn 1. desember 2009 efndu Málvísindastofnun og deildin til tveggja daga málþings henni til heiðurs, í samvinnu við norræna öndvegissetrið NORMS. Á ráðstefnunni sem haldin var 30. nóvember og 1. desember fluttu 11 norrænir og íslenskir málfræðingar fyrirlestra um ýmis málfræðileg hugðarefni Joan Maling í gegnum tíðina, m.a. stílfærslu, fornöfn og afturbeygingu, föll og fallakerfi og þolmynd, bæði nýja og hefðbundna. Ráðstefnan þótti heppnast mjög vel.

Rannsóknir

Innan Málvísindastofnunar starfa málfræðingar í íslensku, almennum málvísindum og táknmálsfræði. Þeir vinna að fjölbreyttum rannsóknum og fengu árið 2009 styrki bæði úr Rannsóknasjóði og Rannsóknasjóði Háskólans. Rannsóknarstyrkir hafa á undanförnum árum gert málfræðingum kleift að veita nemendum mikilsverða þjálfun í rannsóknum. Vinna við rannsóknaverkefnin „Tilbrigði í færeyskri setningagerð“, sem Höskuldur Þráinsson prófessor stjórnar, og „Sagnflokkar og táknun rökliða“ undir stjórn Jóhannesar Gísla Jónssonar hélt áfram á grundvelli framhaldsstyrkja frá Rannsóknasjóði (RANNÍS). Tvö verkefni hlutu styrki Rannsóknasjóðs til þriggja ára. Annars vegar öndvegisverkefnið „Hagkvæm máltækni utan ensku – íslenska tilraunin“ sem Eiríkur Rögnvaldsson stýrir og hins vegar „Samspil bragkerfis, hljóðkerfis og setningagerðar“ undir stjórn Þórhalls Eyþórssonar. Þessu til viðbótar var unnið að nokkrun verkefnum á grundvelli styrkja frá Rannsóknasjóði HÍ. Viðfangsefnin voru fjölbreytt: Íslenskt mál á 19. öld (Jóhannes Gísli Jónsson), bragkerfi dróttkvæða og rímna (Kristjáns Árnasonar), setningafræðileg þáttun forníslenskra texta (Eiríkur Rögnvaldsson), setningafræði íslensks táknmáls (Rannveig Sverrisdóttir) og þolmynd í máli ungra íslenskra barna (Sigríður Sigurjónsdóttir), auk þess sem styrkur fékkst til að halda áfram við umskráningu mállýskugagna. Af öðrum viðfangsefnum má nefna málfræðilegt kyn, söguleg málvísindi og máltileinkun og millimál íslenskumálnema. Loks má geta þess að Höskuldur Þráinsson prófessor hlaut heiðursverðlaun Ásusjóðs árið 2009.