Árbók Háskóla Íslands 2012
Stjórn og starfsmenn
Fulltrúar kennara voru eins og áður þeir Höskuldur Þráinsson, stjórnarformaður, og Matthew Whelpton. Fulltrúi framhaldsnema var Theódóra A. Torfadóttir, en Rannveig Sverrisdóttir var varamaður í stjórn. Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Stofnunin hafði aðstöðu á 3. hæð Árnagarðs. Þá deilir stofnunin vinnuherbergi á 3. hæð Nýja-Garðs.
Þórhallur Eyþórsson var áfram sérfræðingur við Málvísindastofnun (samkvæmt sérstökum samningi við Hugvísindastofnun frá 1. júlí 2011). Þórhallur hafði aðstöðu í vinnuherbergi stofnunarinnar í Árnagarði þar til hann var ráðinn til kennslu í ensku (sem sérfræðingur) frá 1. júlí 2012. Ýmsir rannsóknamenn höfðu tímabundna vinnuaðstöðu í Árnagarði, Nýja-Garði og hjá Stofnun Árna Magnússonar að Neshaga 16.
Félagar í Málvísindastofnun eru nú 28, þar af tveir nýdoktorar og átta doktorsnemar. Þá eru ótaldir rannsóknamenn í tímabundnum verkefnum.
Rannsóknir
Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun
Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsóknaverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu 2012 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:
- Stökkbreytingar í íslenskri setningagerð. Styrkur frá Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS). Verkefnisstjóri Þórhallur Eyþórsson, meðumsækjendur m.a. Eiríkur Rögnvaldsson og Kristján Árnason.
- Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld. Styrkur frá Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS). Verkefnisstjóri Ásta Svavarsdóttir (Stofnun Árna Magnússonar) en í verkefnisstjórn eru m.a. Eiríkur Rögnvaldsson og Guðrún Þórhallsdóttir.
- Frumgerð færeysks trjábanka. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Eiríkur Rögnvaldsson.
- Bragfræðilegur breytileiki í eddukvæðum og dróttkvæðum: tölfræðilegt yfirlit. Verkefnisstjóri Kristján Árnason. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
- Málbreytingar í einangrun. Verkefnisstjóri Þórhallur Eyþórsson. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
Þá var haldið áfram vinnu við ýmis verkefni sem hafa notið styrkja frá Rannsóknasjóði (gegnum RANNÍS), Rannsóknasjóði Háskólans, Þjóðhátíðarsjóð o.fl. Þetta eru einkum íslenski hlutinn í verkefninu „META-NORD“ , en það er máltækniverkefni sem naut styrks frá Evrópusambandinu (verkefnisstjóri íslenska hlutans var Eiríkur Rögnvaldsson), íslenski hlutinn í verkefninu „Evolution of Semantic Systems“, sem er stýrt frá Max Planck Institute of Psycholinguistics í Nijmegen (verkefnisstjóri íslenska hlutans var Matthew Whelpton), COST-verkefnið „Rannsókn á málfræði táknmála í Evrópu“ (stjórnendur fyrir Íslands hönd Rannveig Sverrisdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson), „Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð“ (RANNÍS og Þjóðhátíðarsjóður, Höskuldur Þráinsson o.fl.), „Indo-European case and argument structure in a typological perspective“ (Háskólinn í Bergen, íslenskur meðstjórnandi Þórhallur Eyþórsson), „Umskráning og aðlögun mállýskugagna“ (Rannsóknasjóður HÍ, Höskuldur Þráinsson). Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.
Styrkir sem stofnunin veitti
Eins og áður veitti stofnunin MA-nemum styrki til þess að fara á ráðstefnur erlendis til að flytja fyrirlestra, enda eiga þeir ekki kost á öðrum styrkjum til þess. Stofnunin veitti þrjá slíka styrki á árinu.
Stofnunin hélt einnig áfram að veita mótframlög vegna styrkja úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og frá Vinnumálastofnun. Átta slíkir styrkir voru veittir á árinu, fjórir vegna verkefna sem Nýsköpunarsjóður styrkti og fjórir vegna styrkja frá Vinnumálastofnun.
Þá auglýsti stofnunin nýja tegund rannsóknastyrkja fyrir félaga. Þeir eru annars vegar ætlaðir til þess að ljúka verkefnum sem hafa notið styrkja og eftir er að ganga frá og hins vegar sem undirbúningsstyrkir fyrir þá sem eru að fara af stað með ný verkefni og vilja komast af stað með þau áður en sótt er um stærri styrki úr samkeppnissjóðum. Tveir slíkir styrkir voru veittir á árinu.
Loks hefur stofnunin veitt doktorsnemum styrki til að sækja námskeið erlendis eða dveljast við fræðastofnanir í öðrum löndum til að sinna rannsóknum sínum. Enginn slíkur styrkur var veittur á starfsárinu.
Heimsóknir fræðimanna
Eitt af hlutverkum Málvísindastofnunar er að taka á móti málfræðingum sem vilja dveljast við Háskóla Íslands í tiltekinn tíma til að sinna rannsóknum sínum. Þetta gerir stofnunin oft í samvinnu við Hugvísindastofnun. Jim Wood frá New York University dvaldist hér í nokkrar vikur og vann að doktorsritgerð sinni, sem hann varði síðan á árinu.
Ársfundur stofnunarinnar samþykkti einnig að bjóða einum „aðalfyrirlesara“ á ári. Að þessu sinni gat sá gestur þó ekki komið fyrr en starfsárið var liðið þannig að kostnaður við þá gestakomu fellur á næsta starfsár.
Kynningarstarfsemi og útgáfa
Ráðstefnur
Stofnunin átti aðild að eftirfarandi ráðstefnum á árinu:
- Rask-ráðstefnan í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, haldin í Reykjavík 28. janúar.
- Alþjóðlega ráðstefnan Non-Canonically Case-Marked Subjects within and across Languages and Language Families í samvinnu við rannsóknaverkefnið IECASTP í Bergen. Ráðstefnan var haldin í Reykjavík og í Fljótshlíð 4.–8. júní.
- Málþingið Víst er málfræði skemmtileg! í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, Samtök móðurmálskennara og Íslenskustofu Menntavísindasviðs, haldið í Reykjavík 15. nóvember.
Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og á sl. ári.
Útgáfa
Kennslubókin Sagnasyrpa sem Jón Gíslason, Katrín Axelsdóttir, Kolbrún Friðriksdóttir, María Anna Garðarsdóttir og Sigríður D. Þorvaldsdóttir ritstýrðu. Um er að ræða texta með orðskýringum og verkefnum og bókin er ætluð nemendum í íslensku sem öðru máli. Gefin út í samvinnu við Háskólaútgáfuna.
Þá átti stofnunin aðild að nýrri útgáfu bókarinnar Faroese: A Handbook and Reference Grammar eftir Höskuld Þráinsson o.fl. Málvísindastofnun gefur bókina nú út í samvinnu við forlagið Fróðskap í Færeyjum. Kostnaður við útgáfuna féll að mestu leyti á fyrra starfsár.
Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun
Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum. Þetta eru Máltæknisetur og Rannsóknarstofa í táknmálsfræðum .
Máltæknisetur
Máltæknisetur er samstarfsvettvangur Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um rannsóknir, þróunarstarf og kennslu á sviði máltækni. Í stjórn þess sitja Eiríkur Rögnvaldsson (formaður), Hrafn Loftsson og Sigrún Helgadóttir.
Máltæknisetur tók á árinu þátt í stóru Evrópuverkefni, META-NORD, í umboði Háskóla Íslands. Meginmarkmið verkefnisins var að efla og kynna máltækni í þátttökulöndunum, svo og að safna málföngum (gögnum og hugbúnaði), endurbæta þau, staðla og gera aðgengileg. Þetta var tveggja ára verkefni sem hófst snemma árs 2011. Eiríkur Rögnvaldsson var stjórnandi íslenska hlutans en aðrir starfsmenn voru Kristín M. Jóhannsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Steinþór Steingrímsson. Á vegum verkefnisins var tekin saman skýrsla um íslenska máltækni, Íslensk tunga á stafrænni öld, sem gefin var út bæði á ensku og íslensku af Springer-forlaginu. Verkefnið kom auk þess upp vefsetrinu Málföng þar sem hægt er að nálgast hvers kyns íslensk málföng. Flestum þessara málfanga var einnig komið fyrir í evrópska gagnabrunninum META-SHARE.
Máltæknisetur ásamt orðfræðisviði Árnastofnunar stóð fyrir málstofunni Stefnumót: Á mörkum málfræði og tölvutækni á Hugvísindaþingi 26. mars. Þar voru flutt 7 erindi. Máltæknisetur og META-NORD stóðu enn fremur að ráðstefnunni Máltækni fyrir alla í samvinnu við Íslenska málnefnd hinn 27. apríl. Á ráðstefnunni voru flutt 9 erindi og hana sóttu um 70 manns. Eiríkur Rögnvaldsson kynnti einnig máltækni og skýrsluna Íslensk tunga á stafrænni öld á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 16. maí, á hátíð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum málum í tilefni evrópska tungumáladagsins 26. september, á málþingi Íslenskrar málnefndar um íslensku í tölvuheiminum 13. nóvember, og á hátíðardagskrá Mímis á degi íslenskrar tungu 16. nóvember.
Rannsóknastofa í táknmálsfræðum
Rannsóknastofa í táknmálsfræðum er samstarfsvettvangur fræðimanna Málvísindastofnunar og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) sem annast rannsóknir á íslensku táknmáli.
Rannsóknarstofan fékk , í samvinnu við Noreg og Færeyjar, stóran styrk úr Nordplus Sprog á árinu 2012. Verkefnið sem ber heitið „Táknmálskennsla á vefnum“ beinist að vefnum signwiki. Í Noregi og Færeyjum er unnið að því að setja upp signwiki sambærilegt við það sem til er hér á landi. Á Íslandi snýst verkefnið um að vinna fræðilegar greinar um málfræði íslenska táknmálsins og gera aðgengilegar á signwiki.
Í samvinnu við Málnefnd íslenska táknmálsins var haldið málþing um málumhverfi heyrnarlausra barna á degi íslenska táknmálsins, þann 11. febrúar 2013. Á málþinginu voru fluttir 4 fyrirlestrar, auk ávarps mennta- og menningarmálaráðherra. Vigdís Finnbogadóttir, verndari táknmála Norðurlanda, setti málþingið og börn fluttu bæði ljóð og söng á ÍTM.
Aðilar stofunnar hafa flutt fyrirlestra á ýmsum vettvangi um málfræði ÍTM, bæði innanlands og erlendis. Má þar t.d. nefna Hugvísindaþing, Rask-ráðstefnu og FEAST ráðstefnuna sem haldin var í Varsjá 2012. Grein um málfræði ÍTM eftir fjóra málfræðinga innan stofunnar birtist í 34. hefti tímaritsins Íslenskt mál og almenn málfræði. Þrír aðilar stofnunarinnar hafa nú í tvö ár verið þátttakendur í evrópsku COST verkefni sem vinnur að því að gera drög að málfræði fyrir táknmál í Evrópu og hafa sótt fundi, vinnustofur og ráðstefnur á vegum verkefnisins.
Vinnuhópur um málfræðihugtök fundaði á árinu og var ákveðið að fá nemanda til að vinna að BA-ritgerð efnið. Margrét Auður Jóhannesdóttir tók það að sér og vinnur nú að ritgerðinni.
Styrkur fékkst úr Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2012 og vann Árni I. Jóhannsson í tvo mánuði að því að skrá upplýsingar um þá táknmálstexta sem til eru á upptökum (hjá HÍ og SHH), skrá upplýsingar um málhafa og safna saman upplýsingum og leiðbeiningum um erlenda gagnagrunna táknmála.
Um miðbik ársins 2012 var Kristín Lena Þorvaldsdóttir málfræðingur ráðin til starfa á SHH. Verkefni Kristínar Lenu falla flest undir hatt rannsóknarstofunnar og vinnur hún einnig að því að sækja um styrki fyrir verkefni sem falla undir stofuna.