Árbók Háskóla Íslands 2013

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Fulltrúar kennara í stjórn voru eins og áður þeir Höskuldur Þráinsson, stjórnarformaður, og Matthew Whelpton. Fulltrúi framhaldsnema var Bjarki M. Karlsson, en Rannveig Sverrisdóttir var áfram varamaður í stjórn. Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Stofnunin hafði aðstöðu á 3. hæð Árnagarðs. Þá deilir stofnunin vinnuherbergi á 3. hæð Nýja-Garðs, en þar hefur verið unnið við úrvinnslu framburðargagna. Stofnunin hefur líka aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.

Þórhallur Eyþórsson hafði verið sérfræðingur við Málvísindastofnun samkvæmt sérstökum samningi við Hugvísindastofnun, en eftir að hann var ráðinn til kennslu í ensku varð hann sjálfkrafa félagi í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur samkvæmt reglum um aðildarstofnanir Hugvísindastofnunar. Ýmsir rannsóknamenn og gestir höfðu tímabundna vinnuaðstöðu í Árnagarði, Nýja-Garði og hjá Stofnun Árna Magnússonar að Neshaga 16.

Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 30, þar af tveir nýdoktorar og átta doktorsnemar. Þá eru ótaldir rannsóknamenn í tímabundnum verkefnum og erlendir gistifræðimenn.

 

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsóknaverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu 2013 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

  • Tónkvæði í íslensku fyrr á öldum – Vísbendingar úr kveðskap. Styrkur frá Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS). Verkefnisstjóri Kristján Árnason. Meðumsækjandi Haukur Þorgeirsson.
  • Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd. Styrkur frá Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS). Verkefnisstjórar Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir (SVF). Meðumsækjendur Kristján Árnason, Matthew J. Whelpton, Daisy L. Neijmann (B&L), Ásta Svavarsdóttir (SÁMÍF) og Úlfar Bragason (SÁMÍF).
  • Samlíðan – Tungumál, bókmenntir, samfélag. Styrkur frá Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS). Verkefnisstjóri Bergljót S. Kristjánsdóttir (B&L). Meðumsækjendur m.a. Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson.
  • Framburður fyrr og nú – Ítarsamanburður. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Höskuldur Þráinsson.
  • Orðaröð og færslur í íslensku táknmáli. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson.
  • Félagsleg og hugmyndafræðileg áhrif í málþróun og breytileika. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Kristján Árnason.
  • Syntactic Change in Icelandic: Documentation in Corpora. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Þórhallur Eyþórsson.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands (gegnum RANNÍS) og Rannsóknasjóði Háskólans. Þetta eru t.d. verkefnin „Stökkbreytingar í íslenskri setningagerð“ (RANNÍS, Þórhallur Eyþórsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Kristján Árnason o.fl.), „Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld – Tilurð opinbers málstaðals“ (RANNÍS, Ásta Svavarsdóttir (SÁMÍF), Eiríkur Rögnvaldsson, Guðrún Þórhallsdóttir o.fl.), „Frumgerð færeysks trjábanka“ (Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, Eiríkur Rögnvaldsson), „Evolution of Semantic Systems“ (Max Planck Institute of Psycholinguistics, Matthew J. Whelpton), „Rannsókn á málfræði táknmála í Evrópu“ (COST-verkefni, Rannveig Sverrisdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson), „EVALISA: The Evolution of Case, Alignment and Argument Structure in Indo-European“ (ERC-styrkur, verkefnisstjóri Jóhanna Barðdal, Gent; íslenskur þátttakandi Þórhallur Eyþórsson). Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

 

Styrkir sem stofnunin veitti

Undanfarin ár hefur stofnunin veitt MA-nemum styrki til að sækja ráðstefnur erlendis og flytja fyrirlestra. Doktorsnemar hafa einnig fengið styrki til að sækja námskeið erlendis eða dveljast við fræðastofnanir í öðrum löndum til að sinna rannsóknum sínum. Á starfsárinu var reglum um þessa styrki breytt nokkuð og gengið frá nýjum umsóknareyðublöðum. Nú geta allir framhaldsnemar sótt um styrki til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum, en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Stofnunin veitti framhaldsnemum tvo styrki til fyrirlestrahalds á ráðstefnum og tvo styrki til þess að sækja námskeið og til námsdvalar.

Þá auglýsti stofnunin eins og áður sérstak rannsóknastyrki fyrir félaga. Þeir eru annars vegar ætlaðir til þess að ljúka verkefnum sem hafa notið styrkja og eftir er að ganga frá og hins vegar sem undirbúningsstyrkir fyrir þá sem eru að fara af stað með ný verkefni og vilja komast af stað með þau áður en sótt er um stærri styrki úr samkeppnissjóðum. Sex slíkir styrkir voru veittir á árinu, en félagar í stofnuninni mættu gjarna vera duglegri að sækja um þessa styrki.

 

Heimsóknir fræðimanna

Eitt af hlutverkum Málvísindastofnunar er að taka á móti málfræðingum sem vilja dveljast við Háskóla Íslands í tiltekinn tíma til að sinna rannsóknum sínum. Þetta gerir stofnunin oft í samvinnu við Hugvísindastofnun. Þessir gestir fá yfirleitt vinnuaðstöðu í herbergi stofnunarinnar á 3. hæð Árnagarðs.

  • Cherlon Ussery, Carleton College í Bandaríkjunum, var hér í rannsóknaleyfi í nokkrar vikur og vann að efni tengdu íslenskri setningagerð.
  • Nicole Dehé, háskólanum í Konstanz í Þýskalandi, var hér í rannsóknaleyfi í nokkra mánuði og vann að efni tengdu tónfalli í íslensku.
  • Alexander Pfaff, doktorsnemi við háskólann í Tromsö í Noregi, kom til að safna efni í doktorsritgerð sína, en hún fjallar um setningafræðilegt efni í íslensku. Hann dvaldist hér í nokkrar vikur.

Ársfundur stofnunarinnar samþykkti einnig að bjóða einum „aðalfyrirlesara“ á ári. Diane Lillo-Martin var aðalfyrirlesari fyrra árs, en komst ekki fyrr en á þessu starfsári þannig að kostnaður við komu og dvöl hennar fellur á þetta starfsár. Hún fæst einkum við rannsóknir á máltöku og táknmáli, flutti fyrirlestur um það efni og ræddi við nemendur og rannsakendur á því sviði. Stjórn stofnunarinnar hafði samþykkt að aðalfyrirlesari starfsársins yrði Alan Beretta, en hann er að vinna að rannsóknaverkefni tengdu taugamálfræði og merkingarfræði íslensku, en hann kemur ekki fyrr en í ágúst 2014.

 

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Ráðstefnur

Stofnunin átti aðild að eftirfarandi ráðstefnum á árinu:

  • Rask-ráðstefnan í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, haldin í Reykjavík 26. janúar 2013.
  • Alþjóðlega ráðstefnan 25th Scandinavian Conference of Linguistics (25 SCL) var haldin í Reykjavík 13.–15. maí 2013. Málvísindastofnun stóð fyrir ráðstefnunni, Nordic Association of Linguists (NAL) var bakhjarlinn að venju og Þórhallur Eyþórsson formaður ráðstefnustjórnar. Boðsfyrirlesarar voru Elisabeth Engberg-Pedersen (Kaupmannahöfn), Hans-Martin Gärtner (Búdapest) og Alec Marantz (New York). Þetta mun hafa verið fjölsóttasta ráðstefna sinnar tegundar um árabil.
  • Málvísindastofnun styrkti ráðstefnuna 4th Annual Workshop on Immigrant Languages in the Americas 19.–21. september 2013. Ráðstefnustjóri var Birna Arnbjörnsdóttir (SVF) en allmargir félagar Málvísindastofnunar fluttu fyrirlestra á ráðstefnunni.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og á sl. ári.

 

Útgáfa

Stofnunin gaf út eftirtaldar bækur á árinu:

  • Tilbrigði í íslenskri setningagerð. I. Markmið, aðferðir og efniviður. Ritstjórar voru Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson og Einar Freyr Sigurðsson. Í bókinni eru nokkrir kaflar eftir félaga í Málvísindastofnun.
  • Stofnunin styrkti útgáfu bókarinnar Chomsky – Mál, sál og samfélag. Hugvísindastofnun og Háskólaútgáfan gáfu bókina út og ritstjórar voru Höskuldur Þráinsson og Matthew Whelpton. Allmargir félagar í Málvísindastofnun eiga kafla í bókinni.
  • Stjórn stofnunarinna samþykkti að styrkja útgáfu afmælisrits Péturs Knútssonar, en það er ekki komið út þegar þetta er ritað.

 

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum. Þetta eru Máltæknisetur og Rannsóknarstofa í táknmálsfræðum.

Máltæknisetur

Máltæknisetur er samstarfsvettvangur Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um rannsóknir, þróunarstarf og kennslu á sviði máltækni. Setrið er jafnframt stofa innan Málvísindastofnunar. Í stjórn þess sitja Eiríkur Rögnvaldsson (formaður), Hrafn Loftsson og Sigrún Helgadóttir.

Frá árinu 2011 tók Máltæknisetur þátt í stóru Evrópuverkefni, META-NORD, í umboði Háskóla Íslands. Meginmarkmið verkefnisins var að efla og kynna máltækni í þátttökulöndunum, svo og að safna málföngum (gögnum og hugbúnaði), endurbæta þau, staðla og gera aðgengileg. Þetta var tveggja ára verkefni og lauk snemma árs 2013. Eiríkur Rögnvaldsson var stjórnandi íslenska hlutans en aðrir starfsmenn voru Kristín M. Jóhannsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Steinþór Steingrímsson. Á vegum verkefnisins var tekin saman skýrsla um íslenska máltækni, Íslensk tunga á stafrænni öld, sem gefin var út bæði á ensku og íslensku af Springer-forlaginu. Verkefnið kom auk þess upp vefsetrinu Málföng þar sem hægt er að nálgast hvers kyns íslensk málföng. Flestum þessara málfanga var einnig komið fyrir í evrópska gagnabrunninum META-SHARE.

Aðalverkefni Máltækniseturs á árinu var að undirbúa LREC-ráðstefnuna (Language Resources and Evaluation) sem haldin var í Reykjavík í lok maí 2014, en þetta er stærsta máltækniráðstefna heims, haldin á tveggja ára fresti. Ráðstefnan er haldin á vegum ELRA (European Language Resources Association), en samstarfsaðilar á Íslandi voru Máltæknisetur og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Fulltrúar ELRA komu til landsins bæði í lok árs 2012 og um mitt ár 2013 til að skoða aðstæður í samvinnu við Máltæknisetur. Sumarið 2013 var sett saman íslensk undirbúningsnefnd undir forystu Máltækniseturs með þátttöku allra aðila setursins, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Hugvísindastofnunar. Sigrún Helgadóttir var ritari nefndarinnar og sinnti margvíslegum störfum fyrir hana, en Hrafn Loftsson var fulltrúi Máltækniseturs í dagskrárnefnd ráðstefnunnar. Vilyrði fékkst hjá ELRA fyrir styrk að upphæð 9.000 evrur til að greiða margvíslegan kostnað innlendu undirbúningsnefndarinnar. Gerð verður nánari grein fyrir ráðstefnunni sjálfri og undirbúningi hennar í árbók 2014.

Rannsóknastofa í táknmálsfræðum

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Rannsóknastofa
í táknmálsfræðum er samstarfsvettvangur fræðimanna Málvísindastofnunar Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem stunda rannsóknir á táknmáli. Auk starfsmanna þessara stofnanna eiga nokkrir utanaðkomandi aðilar aðild að rannsóknarstofunni. Starfsmenn HÍ og SHH hafa aðstöðu á sínum vinnustað en stofan hefur að öðru leyti ekki yfir sérstöku húsnæði að ráða. Stjórn stofunnar er skipuð til eins árs í senn og á síðasta ársfundi voru Júlía G. Hreinsdóttir, Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir endurkjörnar til ársins 2014.

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Rannsóknastofu í táknmálsfræðum

Félagar í rannsóknarstofunni hafa undanfarið ár komið að mörgum rannsóknarverkefnum, bæði innlendum sem fjölþjóðlegum og hlotið til þess nokkra styrki. Auk þess hefur verið sótt um nokkra styrki sem ekki hafa fengist. Á árinu 2013 bættust m.a. þessi verkefni við:

  • Júlía G. Hreinsdóttir fagstjóri á SHH og meistaranemi í Náms- og kennslufræði hóf þátttöku í verkefni sem fellur undir CEFR (evrópska tungumálarammann). Júlía hefur sótt kynningar um hlutverk CEFR og skoðar nú stöðuna og ferli fyrir íslenskt táknmál innan CEFR.
  • Samstarfsverkefni á milli SHH, leikskólans Sólborgar og Klettaskóla um samskiptaleiðir fyrir daufblinda.
  • Unnið var að söfnun og skráningu nafnatákna í ÍTM. Stóð vinnan í 2 mánuði og var styrkt af Vinnumálastofnun.

Þá var haldið áfram vinnu við ýmis verkefni sem (sum hver) hlutu styrki fyrir árið 2013:

  • Vinna í Nordplusverkefninu Táknmálskennsla á vefnum heldur áfram og hefur verið unnið að greinaskrifum og þýðingum á greinum á ÍTM. Tvær greinar eru nú þegar komnar inn á vefinn. Áfangaskýrslu um verkefnið var skilað á miðju ári 2013 en því lýkur haustið 2014.
  • Tveir aðilar rannsóknarstofunnar taka þátt í COST verkefni um málfræði táknmála í Evrópu og sóttu tvo fundi vegna þessa á árinu 2013.
  • Evrópska samstarfsverkefninu BiBiKit, sem starfsfólk SHH hefur tekið þátt í, lauk í júní 2013.
  • Evrópska samstarfsverkefnið Signs2Cross hófst í janúar 2013. Verkefnið er til tveggja ára og tekur starfsfólk SHH þátt í því fyrir Íslands hönd.
  • Á SHH er í gangi fjölbreytt rannsóknarvinna/gagnasöfnun sem tengist máltöku, málþroska, stöðumati o.fl. Meðal verkefna má nefna stöðumat á íslensku táknmáli hjá börnum, endurskoðun á matstæki til að meta færni í íslensku táknmáli, þróunarverkefni í orðaforðakennslu og lestrarmati í samvinnu við kennara í Holtaskóla í Keflavík svo eitthvað sé nefnt.

Aðilar rannsóknarstofunnar héldu nokkra fyrirlestra á árinu og tóku þátt í ráðstefnum og málþingum hér heima og erlendis:

  • Í samvinnu við Málnefnd um íslenskt táknmál stóð rannsóknastofan fyrir málþingi á degi íslenska táknmálsins þann 11. febrúar 2013. Málþingið var vel sótt en þar voru fluttir 4 fyrirlestrar, einn af Nedelinu Ivanovu málfræðingi á SHH.
  • Rannsóknastofan tók þátt í ráðstefnunni 25th Scandinavian Conference of Linguistics, sem haldin var í Háskóla Íslands dagana 13-15.maí 2013. Á ráðstefnunni var heilsdags málstofa um táknmál og héldu fjórir aðilar rannsóknastofunnar þar samtals tvö erindi um rannsóknir á íslenska táknmálinu.
  • Þátttaka í málþingi um málheildir norrænna táknmála haldið í Kaupmannahöfn í desember. Tveir fulltrúar Íslands, Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir fóru á málþingið og kynntu stöðuna á Íslandi.
  • Af erindum og þátttöku í fjölþjóðlegum ráðstefnum má nefna erindi Elísu G. Brynjólfsdóttur, Jóhannesar G. Jónssonar, Kristínar Lenu Þorvaldsdóttur og Rannveigar Sverrisdóttur á ICLaVE 7 ráðstefnunni í Þrándheimi um tilbrigði í spurnarsetningum í ÍTM, veggspjald Elísu og Jóhannesar á TISLR11 í London einnig um spurnarsetningar, fyrirlestra á áðurnefndir norrænni ráðstefnu í Reykjavík; Kristínar Lenu og Rannveigar um litatákn í ÍTM og Elísu og Jóhannesar um hv-spurningar í ÍTM.
  • Af innlendum vettvangi má nefna þátttöku á Rask-ráðstefnunni, Hugvísindaþingi, áðurnefndu málþingi 11.febrúar og málvísindakaffi Íslenska málfræðifélagsins. Fyrirlestra fluttu Elísa G. Brynjólfsdóttir, Jóhannes G. Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir, Nedelina Ivanova og Rannveig Sverrisdóttir.
  • Þátttaka í Vísindavöku Rannís 2013 þar sem Signwiki var kynnt.

Á árinu var einnig unnið að umsóknum um styrki sem ekki fengust þó allir:

  • Mikil vinna var að baki umsókn í HRELP sjóðinn sem styður tungumál í útrýmingarhættu. Sótt var um styrk til þess að vinna að málheild ÍTM. Málvísindastofnun HÍ styrkti þessa vinnu að hluta en hún var að mestu unnin af Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur. Þegar þessa skýrsla er skrifuð er ljóst að styrkurinn fékkst ekki.
  • Gerð umsóknar í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands fyrir verkefni sem nefnist Þrjár setningagerðir í íslensku táknmáli. Verkefnisstjóri er Jóhannes Gísli Jónsson. Hluti umbeðinnar upphæðar var veittur til verkefnisins og kemur hann að miklu eða öllu leyti í hlut SHH fyrir vinnu málfræðings á SHH í verkefninu árið 2014.
  • Umsókn í Innviðasjóð Háskóla Íslands vegna málheildar ÍTM. Styrkur fékkst ekki.
  • Styrkur fékkst frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir verkefnið Mótun starfsnáms fyrir döff og heyrnarskerta framhaldsskólanemendur í kennslu íslensks táknmáls. Verkefnið hlaut styrk úr sjóðnum „Nám er vinnandi vegur - átak í starfsmenntun“ .
  • Sótt var um ýmsa fleiri styrki sem ekki fengust.

 Heimsóknir fræðimanna

Töluvert var um heimsóknir fræðimanna á sviði táknmálsfræða á árinu 2013.

  • Fyrst ber að nefna komu Dr. Diane Lillo-Martin frá Connecticut háskóla sem kom hingað í apríl í boði Málvísindastofnunar HÍ og dvaldi í eina viku. Lillo-Martin hélt tvo fyrirlestra meðan hún dvaldi hér og vann svo heilan dag með málfræðingum innan annsóknastofunnar.
  • Dr. Annika Herrmann sérfræðingur við háskólann í Göttingen dvaldi hér í rúma viku í maí tengslum við COST verkefnið sem við tökum þátt í. Annika vann með málfræðingum innan stofunnar að ýmsum verkefnum þessa viku. Jana Hosemann doktorsnemi við sama skóla dvaldi hér einnig í nokkra daga og tók þátt í vinnu með Dr. Herrmann.
  • Í tengslum við norrænu ráðstefnuna 25th Scandinavian Conference of Linguistics komu hingað margir málfræðingar sem stunda rannsóknir á táknmálum. Dr. Elisabeth Engberg-Pedersen prófessor við Kaupmannahafnarháskóla var einn af boðsfyrirlesurum ráðstefnunnar.
  • Í framhaldi af25-SCL ráðstefnunni voru haldnar vinnustofur á SHH með táknmálstúlkum þar sem Dr. Graham Turner prófessor við Edinborgarháskóla og táknmálstúlkarnir Oliver Pouliot og Andy Carmichael unnu með íslenskum túlkum. Þátttaka í vinnustofunum var mjög góð.  

 Kynningarstarfsemi og útgáfa

Rannsóknastofan hefur átt aðild að málþingum og ráðstefnum á árinu eins og nefnd var hér að ofan. Rannsóknastofan tekur þátt í að kynna öll verkefni er varða rannsóknir á íslenska táknmálinu. Það sem helst mætti telja til útgáfustarfsemi er Signwiki verkefnið sem unnið er á SHH. SignWiki er þekkingarbrunnur um íslenskt táknmál og gegnir hlutverki orðabókar. Signwiki var tilnefnt til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna í opinberum rekstri (EPSA) og komst í úrslit, annað tveggja íslenskra verkefna. Signwiki síðan er í stöðugri þróun og þar bætist stöðugt við nýtt efni auk þess sem hún hefur verið yfirfærð á fimm erlend táknmál. Á síðasta ársfundi var samþykkt að halda opna málstofu um Signwiki en af því varð ekki á árinu 2013. Málstofan hefur verið sett á dagskrá í september 2014.