Árbók Háskóla Íslands 2014

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Fram að aðalfundi stofnunarinnar sátu í stjórn þeir Höskuldur Þráinsson, stjórnarformaður, og Matthew Whelpton sem fulltrúar kennara og Bjarki M. Karlsson sem fulltrúi framhaldsnema, en Rannveig Sverrisdóttir var varamaður. Á aðalfundi í apríl voru kosnir nýir fulltrúar kennara: Eiríkur Rögnvaldsson, stjórnarformaður, og Rannveig Sverrisdóttir, en Sigríður Þorvaldsdóttir sem varamaður. Bjarki M. Karlsson er áfram fulltrúi framhaldsnema. Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Stofnunin hafði aðstöðu á 3. hæð Árnagarðs. Þá deilir stofnunin vinnuherbergi á 3. hæð Nýja-Garðs, en þar hefur verið unnið við úrvinnslu framburðargagna. Stofnunin hefur líka aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.Ýmsir rannsóknamenn og gestir höfðu tímabundna vinnuaðstöðu í Árnagarði og Nýja-Garði.Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 29, þar af tveir nýdoktorar og átta doktorsnemar. Þá eru ótaldir rannsóknamenn í tímabundnum verkefnum og erlendir gistifræðimenn. 

 

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsóknaverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu 2014 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

  • Þrjár setningagerðir í íslensku táknmáli. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson.
  • Góð íslenska og miður góð. Eigindleg rannsókn á mati á málviðmiðum. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Kristján Árnason.
  • Colour in Context: Comparing Icelandic and Icelandic Sign Language. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Matthew Whelpton.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands (gegnum RANNÍS) og Rannsóknasjóði Háskólans. Þetta eru t.d. verkefnin „Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd“  (RANNÍS, verkefnisstjórar Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir (SVF), Kristján Árnason, Matthew J. Whelpton o.fl); „Samlíðan – Tungumál, bókmenntir, samfélag“  (RANNÍS, verkefnisstjóri Bergljót S. Kristjánsdóttir (B&L), Jóhannes Gísli Jónsson, Þórhallur Eyþórsson o.fl.); „Framburður fyrr og nú – Ítarsamanburður“ (Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, Höskuldur Þráinsson); „Stökkbreytingar í íslenskri setningagerð“ (RANNÍS, Þórhallur Eyþórsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Kristján Árnason o.fl.); „Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld – Tilurð opinbers málstaðals“ (RANNÍS, Ásta Svavarsdóttir (SÁMÍF), Eiríkur Rögnvaldsson, Guðrún Þórhallsdóttir, Haraldur Bernharðsson o.fl.); „Evolution of Semantic Systems“ (Max Planck Institute of Psycholinguistics, Matthew J. Whelpton); „Rannsókn á málfræði táknmála í Evrópu“ (COST-verkefni, Rannveig Sverrisdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson); „EVALISA: The Evolution of Case, Alignment and Argument Structure in Indo-European“ (ERC-styrkur, verkefnisstjóri Jóhanna Barðdal, Gent; íslenskur þátttakandi Þórhallur Eyþórsson). Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki. 

Styrkir sem stofnunin veitti

Framhaldsnemar, bæði meistara- og doktorsnemar, geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum, en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu veitti stofnunin einum framhaldsnema styrk til þess að sækja námskeið. Þá auglýsti stofnunin eins og áður sérstaka rannsóknastyrki fyrir félaga. Þeir eru annars vegar ætlaðir til þess að ljúka verkefnum sem hafa notið styrkja og eftir er að ganga frá og hins vegar sem undirbúningsstyrkir fyrir þá sem eru að fara af stað með ný verkefni og vilja komast af stað með þau áður en sótt er um stærri styrki úr samkeppnissjóðum. Fimm slíkir styrkir voru veittir á árinu. 

Heimsóknir fræðimanna

Eitt af hlutverkum Málvísindastofnunar er að taka á móti málfræðingum sem vilja dveljast við Háskóla Íslands í tiltekinn tíma til að sinna rannsóknum sínum. Þetta gerir stofnunin oft í samvinnu við Hugvísindastofnun. Þessir gestir fá yfirleitt vinnuaðstöðu í herbergi stofnunarinnar á 3. hæð Árnagarðs. Anton Karl Ingason, doktorsnemi við University of Pennsylvania, fékk aðstöðu þar um tíma. Einnig kom Nicole Dehé, prófessor við háskólann í Konstanz í Þýskalandi, oftar en einu sinni til landsins á árinu og var í tengslum við stofnunina.

Málvísindastofnun tók nýlega upp þann sið að bjóða einum aðalfyrirlesara til landsins á ári. Aðalfyrirlesari starfsársins 2014 var Alan Beretta, prófessor við Michigan State University í Bandaríkjunum, en hann vinnur að rannsóknaverkefni tengdu taugamálfræði og merkingarfræði íslensku í samvinnu við Matthew Whelpton og fleiri. Hann dvaldist á landinu í vikutíma, vann að rannsóknum í samvinnu við heimamenn og flutti fyrirlestur um viðfangsefni sín. 

 

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Ráðstefnur

Stofnunin átti aðild að eftirtöldum ráðstefnum á árinu:

  • 28. Rask-ráðstefnan í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, haldin í Reykjavík 25. janúar 2014.
  • LREC 9 (Language Resources and Evaluation Conference), haldin í Reykjavík 26.-31. maí 2014. Aðalaðstandandi ráðstefnunnar sem fór fram í Hörpu er ELRA (European Language Resources Association) í París, en íslenskir samstarfsaðilar og skipuleggjendur voru Máltæknisetur (stofa innan Málvísindastofnunar) og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Eiríkur Rögnvaldsson var formaður íslensku undirbúningsnefndarinnar. Nánari grein er gerð fyrir ráðstefnunni í kafla Máltækniseturs hér á eftir.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og á sl. ári. ÚtgáfaStofnunin gaf ekki út neinar nýjar bækur á árinu en ýmsar kennslubækur hennar voru endurprentaðar. Stjórn stofnunarinnar hefur einnig samþykkt að styrkja útgáfu þriggja væntanlegra rita; afmælisrits Péturs Knútssonar, ráðstefnuritsins Approaches to Nordic and Germanic Poetry sem Kristján Árnason ritstýrir og „Skrifaðu bæði skýrt og rétt“, handbókar og kennslubókar um fræðileg skrif, ritrýni og ritstjórn eftir Höskuld Þráinsson.

 

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum. Þetta eru Máltæknisetur og Rannsóknarstofa í táknmálsfræðum.

 

Máltæknisetur

Máltæknisetur er samstarfsvettvangur Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um rannsóknir, þróunarstarf og kennslu á sviði máltækni. Setrið er jafnframt stofa innan Málvísindastofnunar. Í stjórn þess sitja Eiríkur Rögnvaldsson (formaður), Hrafn Loftsson og Sigrún Helgadóttir.

Aðalverkefni Máltækniseturs á árinu var að undirbúa og halda LREC-ráðstefnuna (Language Resources and Evaluation, sjá hér að framan) sem fór fram í Reykjavík í lok maí 2014, en þetta er stærsta máltækniráðstefna heims, haldin á tveggja ára fresti. Ráðstefnan er haldin á vegum ELRA (European Language Resources Association), en samstarfsaðilar á Íslandi voru Máltæknisetur og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ráðstefnan var haldin undir verndarvæng UNESCO.

Sumarið 2013 var sett saman íslensk undirbúningsnefnd undir forystu Máltækniseturs með þátttöku allra aðila setursins, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Hugvísindastofnunar. Eiríkur Rögnvaldsson var formaður nefndarinnar, Sigrún Helgadóttir var ritari nefndarinnar og sinnti margvíslegum störfum fyrir hana, en Hrafn Loftsson var fulltrúi Máltækniseturs í dagskrárnefnd ráðstefnunnar. Dagskrárnefndin hélt þriggja daga fund í Reykjavík í janúar til að ákveða endanlega dagskrá. Forráðamenn ELRA komu einnig til landsins á sama tíma til að gera ýmsar undirbúningsráðstafanir í samráði við íslensku undirbúningsnefndina. 

Í samvinnu við bókaútgáfuna Gudrun var gefin út sérstök útgáfa Hávamála á ensku til að færa ráðstefnugestum. Styrkir fengust til útgáfunnar hjá nokkrum fyrirtækjum og stofnunum. ELRA veitti 9.000 evrur til að greiða margvíslegan kostnað íslensku undirbúningsnefndarinnar. Hátt í 30 sjálfboðaliðar úr hópi stúdenta voru fengnir til að vinna við ráðstefnuna meðan á henni stóð. 

Aðalráðstefnan stóð í þrjá daga en tvo daga á undan henni og einn dag á eftir voru haldnar 22 vinnustofur og 9 örnámskeið um margvísleg sérhæfð efni. Þórhallur Eyþórsson flutti sérstakan boðsfyrirlestur um íslensku, „Icelandic Quirks: Testing Linguistic Theories and Language Technology“, og að auki voru allnokkrir fyrirlestrar eftir Íslendinga eða um íslensku, bæði á aðalráðstefnunni og vinnustofum.Rúmlega 1200 manns sóttu ráðstefnuna og þar voru kynnt hátt í þúsund rannsóknar- og þróunarverkefni í fyrirlestrum og veggspjöldum.

Aðalritari UNESCO, Irina Bokova, ávarpaði ráðstefnuna og á opnunarhátíð hennar fluttu einnig ávörp Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Jón Gnarr borgarstjóri og Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, auk fulltrúa skipuleggjenda. Ráðstefnan tókst að öllu leyti mjög vel og voru ráðstefnugestir almennt ánægðir með erindin, skipulagið og ekki síst húsnæðið.

 

Rannsóknastofa í táknmálsfræðum 

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Rannsóknastofa í táknmálsfræðum er samstarfsvettvangur fræðimanna Málvísindastofnunar Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) sem stunda rannsóknir á táknmáli. Auk starfsmanna þessara stofnanna eiga nokkrir utanaðkomandi aðilar aðild að rannsóknarstofunni. Starfsmenn HÍ og SHH hafa aðstöðu á sínum vinnustað en stofan hefur að öðru leyti ekki yfir sérstöku húsnæði að ráða. Stjórn stofunnar er skipuð til eins árs í senn og á síðasta ársfundi voru Júlía G. Hreinsdóttir, Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir endurkjörnar til ársins 2015.

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Rannsóknastofu í táknmálsfræðum

Félagar í rannsóknastofunni hafa undanfarið ár komið að mörgum rannsóknaverkefnum, bæði innlendum sem fjölþjóðlegum. Á árinu 2014 bættust m.a. þessi verkefni við:

  • Þrjár setningagerðir í íslensku táknmáli. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson. Silja Hlín Guðbjörnsdóttir BA nemi fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að skrá gögn fyrir rannsóknaverkefnið.
  • Colour in Context: Comparing Icelandic and Icelandic Sign Language. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Matthew Whelpton.

Þá var haldið áfram vinnu við fjölmörg önnur verkefni. Nordplusverkefninu Táknmálskennsla á vefnum lauk á árinu og hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands (önnur verðlaun) árið 2014. Þá unnu nokkrir aðilar að rannsóknum á neitun í ÍTM og kynntu á ráðstefnu erlendis og fékkst styrkur frá Málvísindastofnun til að skrá gögn fyrir þá rannsókn. Á SHH var haldið áfram vinnu við þróun matstækja og fól það m.a. í sér gagnasöfnun, greiningu og endurmat.

Heimsóknir fræðimanna

Rannsóknastofan tók á móti nokkrum fræðimönnum sem komu til landsins í tengslum við LREC 9 sem haldin var í lok maí:

  • Dr. Andrea Lackner frá Centre for Sign Language and Deaf Communication (ZGH) við Alpen-Adria Háskólann í Klagenfurt dvaldi hér í rúma viku í maí-júní á styrk frá COST verkefninu sem aðilar rannsóknastofunnar taka þátt í. Andrea og Nicolaus Reimer unnu í eina viku með starfsfólki SHH og tveimur táknmálstalandi aðilum að söfnun og skráningu gagna til að nota í samanburð við rannsókn á austurríka táknmálinu. Verkefnið ber heitið Implementing a methodological approach for identifying modality categories in sign languages within the framework of semantic field research.
  • Dr. Johanna Mesch heimsótti SHH og vann þar með starfsfólki að skráningu gagna. Johanna Mesch hélt einnig fyrirlestur í félagi heyrnarlausra á vegum rannsóknastofunnar.

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Stofnunin átti aðild að málþingi í tilefni af Degi íslenska táknmálsins þann 11. febrúar 2014 sem haldið var í sal Þjóðminjasafns Íslands.

Það sem helst mætti telja til útgáfustarfsemi er SignWiki verkefnið sem unnið er á SHH. Á árinu birtust tvær nýjar greinar um málfræði ÍTM og ein grein frá árinu 2013 var þýdd á ÍTM og birt í táknmálsútgáfu. Fleiri greinar og þýðingar eru í vinnslu. Þetta verkefni hlaut eins og áður sagði Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands (önnur verðlaun) árið 2014.