Árbók Háskóla Íslands 2017

Almennt um stofnunina og starfsemina

Stjórn Málvísindastofnunar var eins skipuð og undanfarin ár. Fulltrúar kennara voru Eiríkur Rögnvaldsson, stjórnarformaður, og Rannveig Sverrisdóttir, en Sigríður Þorvaldsdóttir er varamaður. Bjarki Karlsson var fulltrúi framhaldsnema. Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 34, þar af 12 doktorsnemar.

Stofnunin hefur í raun enga fasta aðstöðu lengur en hefur aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er hluti af bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.

Fé til starfsemi stofnana Hugvísindasviðs kemur annars vegar af lágri fastri fjárveitingu frá sviðinu (250 þús. kr.) og hins vegar sem hlutfall mótframlaga vegna styrkja sem félagar í stofnuninni afla. Þetta hlutfall hefur verið skorið verulega niður að undanförnu þannig að fjárveiting til  Málvísindastofnunar hefur lækkað um nærri 2/3 á fjórum árum  úr 4,1 millj. kr. 2013 í 1,4 millj. 2017.

Versnandi fjárhagur hefur leitt til þess að styrkjum sem stofnunin veitir hefur fækkað verulega og t.d. eru ekki lengur veittir sérstakir verkefnastyrkir. Ekki hefur verið unnt að bjóða erlendum fræðimanni til landsins undanfarin ár. Starfsemi stofnunarinnar hefur því einkum snúist um að standa að innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum, ein eða í samvinnu við aðra, og styðja útgáfu bóka.

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu 2017 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

  • Málbreytingar á lífsleiðinni – stílfærsla í máli alþingismanns. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Anton Karl Ingason.
  • Þyngd liða og færslur í íslensku. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson.
  • Formgerð samsettra orða í íslensku og utan hennar. Rannsóknarstöðustyrkur frá Rannsóknasjóði til Gísla Rúnars Harðarsonar.
  • Íslenska og færeyska: Hugræn greining á beygingarþróun. Doktorsnemastyrkur frá Rannsóknasjóði til Jóns Símonar Markússonar.
  • Trjábankainnviðir fyrir stafræn hugvísindi. Doktorsnemastyrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til Tinnu Frímann Jökulsdóttur.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands og Rannsóknasjóði Háskólans - sjá ársskýrslur undanfarinna ára. Ótaldar eru svo allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Styrkir sem stofnunin veitti

Framhaldsnemar, bæði meistara- og doktorsnemar, geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum, en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu veitti stofnunin tvo styrki til þess að sækja ráðstefnur, einn námskeiðsstyrk og einn dvalarstyrk. Enn fremur veitti hún tvo mótframlagastyrki vegna styrkja sem félagar fengu frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Vinnumálastofnun.

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Ráðstefnur og málþing

Stofnunin stóð fyrir eða átti aðild að eftirtöldum ráðstefnum, málþingum og vinnustofum á árinu:

  • 31. Rask-ráðstefnan, haldin í Reykjavík 28. janúar 2017 í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið.
  • FEAST 2017, Formal and Experimental Advances in Sign Language Theory, haldin í Reykjavík 21.-22. júní 2017. Skipuleggjendur Jóhannes Gísli Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir, Rannveig Sverrisdóttir og Þórhalla Guðmundsdóttir Beck.
  • Ólafsþing 2017, haldið í Reykjavík 21. október 2017 í samvinnu við Mál og sögu.
  • NELS 48, the 48th Annual Meeting of the North East Linguistic Society, haldin í Reykjavík 27.-29. október 2017. Skipuleggjendur Anton Karl Ingason, Einar Freyr Sigurðsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Iris Edda Nowenstein, Jóhannes Gísli Jónsson, Sigríður Mjöll Björnsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir og Þórhallur Eyþórsson.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og undanfarin ár.

Útgáfa

Engin ný bók kom út í nafni stofnunarinnar á árinu en stofnunin hefur samþykkt að standa að útgáfu tveggja bóka sem væntanlegar eru á næstunni. Stofnunin stendur að útgáfu tímaritsins Íslensks máls ásamt Íslenska málfræðifélaginu sem er aðalútgefandi ritsins.

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum. Þetta eru Máltæknisetur og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum. Starfsemi Máltækniseturs hefur legið niðri en ársskýrsla Rannsóknastofnunar í táknmálsfræði fyrir 2017 er hér.