Ársfundur 2008

Fundargerð ársfundar Málvísindastofnunar

8. maí 2008 kl. 10:30-12:00

Fundurinn var haldinn á kennarastofu á 4. hæð í Árngarði. 14 félagar mættu á fundinn.

1. Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar, flutti ársskýrslu 2007.

2. Forstöðumaður og Margrét Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Hugvísindastofnun, gerðu grein fyrir rekstri stofnunarinnar árið 2007. Rætt var um að viðvarandi halli væri á rekstri stofnunarinnar og stjórn telur að ekki sé hægt að halda áfram á sömu braut. Þrátt fyrir að fastur starfsmaður stofnunarinnar hafi verið í 20% starfi hjá Hugvísindastofnun síðari helming ársins 2007 og tæplega einnar milljónar króna mótframlag hafi borist stofnuninni frá Öndvegisverkefni Höskuldar Þráinssonar, er enn umtalsverður halli á rekstri. Forstöðumaður gerði grein fyrir því að hann stæði í viðræðum við deildarforystuna og starfsmannastjóra Háskólans um að flytja fastan starfsmann stofnunarinnar til í starfi til að létta á rekstri stofnunarinnar. Rætt var um ýmis mál, t.d. bóksölu, sem þarf að endurskoða þegar stofnunin hefur ekki fastan starfsmann lengur.

3. Sigríður Sigurjónsdóttir gerði grein fyrir því að hún gæfi kost á sér sem forstöðumaður stofnunarinnar til næstu tveggja ára til að ganga frá breytingum á rekstri stofnunarinnar. Sigríður var kosinn forstöðumaður til næstu tveggja ára.

4. Kosnir voru tveir meðstjórnendur í stjórn stofnunarinnar til eins árs. Bjarki M. Karlsson, sem verið hefur fulltrúi framhaldsnema í málvísindum, lét af störfum og var Sólveig Brynja Grétarsdóttir kosin í hans stað. Jóhannes Gísli Jónsson, sem verið hefur meðstjórnandi undanfarin tvö ár, var kosinn meðstjórnandi.

5. Lögð var fram rekstraráætlun fyrir árið 2008. Lögð var áhersla á að óvissuþættir í henni væru mjög margir.

6. Eitt annað mál var lagt fyrir fundinn. Formanni Málvísindastofnunar hefur borist bréf frá Matthew Whelpton, dósent í enskum málvísindum, þar sem hann fer fram á að fá aðild að stofnuninni. Matthew tilheyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum en finnst skynsamlegra að eiga aðild að Málvísindastofnun sem hefur yfirsýn yfir það fræðasvið þar sem rannsóknir hans fara fram. Málið var rætt og var samþykkt að veita Matthew aðild að stofnuninni með fyrirvara um að samþykki fáist frá forystu deildarinnar fyrir þessari breytingu.

Fleira gerðist ekki.

Fundargerð ritaði Sigríður Sigurjónsdóttir forstöðumaður.