Header Paragraph

Eiríkur verðlaunaður fyrir árangur á sviði máltækni

Image

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut nýverið Steven Krauwer verðlaunin sem veitt eru fyrir árangur á sviði evrópska rannsóknainnviðaverkefnisins CLARIN. Meginmarkmið verkefnisins er að öll stafræn málföng (language resources) í Evrópu verði aðgengileg á einum stað til nota í rannsóknum í hug- og félagsvísindum og á sviði máltækni.

Eiríkur hefur gegnt lykilhlutverki í þróun máltækni hér á landi og hefur unnið ötullega að því að Ísland eigi aðild að alþjóðlegu þróunarstarfi á því sviði. Hann hefur tekið virkan þátt í evrópskum verkefnum á sviði máltækni frá árinu 1998 og leitt vinnu við verkáætlanir um íslenska máltækni og unnið að fjölda rannsóknarverkefna á þessu sviði, þ.á m. íslensku risamálheildinni sem hefur nýst við fjölda rannsókna í máltækni og málfræði. Eiríkur er einn af stofnendum Almannaróms, sjálfseignarstofnunar sem hefur það hlutverk að tryggja að íslensk tunga sé notuð í tækniheiminum og framfylgja Máltækniáætlun stjórnvalda.  Hann var fyrsti fulltrúi Íslands í CLARIN-verkefninu og gegndi því starfi til 2021.

Steven Krauwer verðlaunin eru kennd við fyrsta framkvæmdastjóra CLARIN-verkefnisins og þau eru bæði veitt efnilegum vísindamönnum og þeim sem hafa náð markverðum árangri í starfi. 

Á Vísindavefnum segir að með máltækni sé átti við hvers kyns samvinnu tungumáls og tölvutækni sem hefur einhvern hagnýtan tilgang; beinist að því að hanna eða útbúa einhvern hugbúnað eða tæki sem nýtist fólki í starfi eða leik.

Sjá nánar um rannsóknir og starfsferil Eiríks Rögnvaldssonar.

Image