Fundargerð ársfundar 2018

Aðalfundur Málvísindastofnunar, 2. maí 2019

Mættir voru: Jóhannes Gísli Jónsson, Sigríður Þorvaldsdóttir, Stefanie Bade, Guðrún Þórhallsdóttir, Matthew Whelpton og Rósa Signý Gísladóttir.

Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hugvísindastofnunar, kom á fundinn og fór yfir ársreikninga stofnunarinnar. Fram kom að fjárhagsstaðan væri mjög góð – um 6 milljónir inni á reikningi stofnunarinnar. Fram kom í máli Margrétar að rétt væri að endurhugsa útgáfumál stofnunarinnar í tengslum við endurskilgreiningu á starfi hennar sjálfrar. Hún benti á að kostnaður við útgáfu á kennslubókum væri falinn þar sem vinna við útgáfuna væri á hennar höndum. Töldu fundarmenn að rétt væri að styrkja útgáfu á fræðibókum félaga stofnunarinnar en hætta útgáfu kennslubóka þar sem það borgaði sig ekki.

Nokkuð var spurt um Háskólaútgáfuna, kostnað og fyrirkomulag við útgáfur og samvinnu við Hugvísindastofnun.

Umræður spunnust um góða fjárhagsstöðu stofnunarinnar og ástæður hennar. Eins var spurt hvort fyrirgreiðsla frá Málvísindastofnun væri háð einhverjum skilyrðum, t.d. að umsækjendur þyrftu að vera í rannsóknarhópi eða hafa fengið tiltekin rannsóknarstig og fram kom að svo væri ekki.

Yfirlit reikninga var samþykkt einróma.

Jóhannes Gísli Jónsson fór yfir ársskýrslu Málvísindastofnunar fyrir árið 2018. Í tengslum við hana var rætt um heimasíðu stofnunarinnar og fundarmenn spurðir hvort þeir teldu æskilegt að uppfæra hana. Fundarmenn voru því hlynntir og töldu að upplýsingar á ensku gætu verið gagnlegar fyrir útlendinga sem væru að kynna sér starfsemi á sviði málvísinda hér. Einnig væri gott að hafa upplýsingar um verkefni sem væru í gangi á heimasíðunni og ráðstefnur sem væru á döfinni. Nokkuð var rætt um tæknilega framsetningu. Fundarmenn voru því samþykkir að Jóhannes sendi póst til félaga stofnunarinnar og bæði um upplýsingar til að uppfæra heimasíðuna.

Umræður spunnust um boðsfyrirlesrara og hvort endurskoða þyrfti dagsetningu fyrir umsóknir um boðsfyrirlesara. Samþykkt var að Jóhannes sendi póst á félaga um boðsfyrirlesara þar sem dagsetning fyrir umsóknir yrði 1. júní. Í lok aðalfundarins minnti Jóhannes fundarmenn á að eftir tvö ár, árið 2021, yrði stofnunin fimmtíu ára. Fundarmenn voru sammála um að rétt væri að halda upp á þau tímamót með einhverjum hætti.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 5.