Rannsóknarstofa í máltileinkun
Rannsóknastofa í máltileinkun (RÍM) er starfrækt við Háskóla Íslands og byggist á samstarfi Málvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Tungumálamiðstöðvar HÍ og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og starfar innan vébanda Hugvísindastofnunar.
Rannsóknastofa í máltileinkun er þverfaglegur samstarfsvettvangur fræðimanna sem stunda rannsóknir á sviði annarsmálsfræða, tvítyngis, tileinkunar máls og menningar og rannsóknir á kennslu í öðru máli og þróun námsefnis.
Hlutverk og markmið:
Markmið Rannsóknastofu í máltileinkun er að:
- Efla þverfaglegt rannsóknar- og þróunarsamstarf, innlent og alþjóðlegt, á sviði annarsmálsfræða,
- Koma á fót gagnagrunni um tileinkun máls og menningar og safna upplýsingum um slík rannsóknargögn,
- Miðla þekkingu á annarsmálsfræðum, t.d. með umræðufundum, málþingum og útgáfu nettímarits,
- Stuðla að bættum ritakosti á fræðasviðinu.
Aðild:
Rétt til aðildar að stofunni eiga fræðimenn innan Málvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Tungumálamiðstöðvar HÍ og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem stunda rannsóknir á sviði annarsmálsfræða, tvítyngis, tileinkunar máls og menningar og rannsóknir á kennslu í öðru máli og þróun námsefnis. Heimilt er stjórn stofunnar að veita öðrum fræðimönnum, sem þess óska, aðild, jafnt þeim sem starfa innan Hugvísindasviðs sem utan.
Stjórn, fundir og fjármál:
Rannsóknastofan skal hafa þriggja manna stjórn sem kjörin er til eins árs í senn á aðalfundi. Stjórnarseta er ólaunuð. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður vera fastur starfsmaður Hugvísindasviðs. Stjórn Rannsóknastofu skal halda a.m.k. einn stjórnarfund á ári, auk aðalfundar, og senda Hugvísindastofnun upplýsingar, þegar kallað er eftir þeim, til birtingar í ársskýrslu.
Rannsóknir innan RÍM eru að jafnaði fjármagnaðar með styrkjum og vinnuframlagi fastra starfsmanna. RÍM nýtur ekki fastra fjárframlaga frá Hugvísindasviði eða Hugvísindastofnun, en getur sótt um starfstengda styrki.
Reglur Rannsóknastofu í máltileinkun voru staðfestar af stjórn Hugvísindastofnunar 17. febrúar 2010.