Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um íslenskt litmál

Image

Þórhalla Guðmundsdóttir Beck hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði, Íslenskt litmál: Merkingarfræði, málfræði, og saga íslenskra litaorða, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 

Andmælendur við vörnina voru Kristín M. Jóhannsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, og Rósa Signý Gísladóttir, dósent við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Matthew Whelpton, prófessors í enskum málvísindum við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, Jón Hilmar Jónsson, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Rannveig Sverrisdóttir, lektor við Háskóla Íslands.

Jón Karl Helgason, varadeildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands miðvikudaginn 13. desember.

Um rannsóknina

Ein af stærstu spurningunum í tungumálarannsóknum er „Hvaðan kemur merking?“ Gerð var rannsókn á orðum sem tengjast hugtakinu litur í íslensku og niðurstöður skoðaðar með tilliti til tveggja stórra en andstæðra kenninga í merkingarfræðum, afstæðishyggju og vitsmunahyggju. Í þeim meginrannsóknum sem gerðar voru, annars vegar vitsmunalegum tilraunum og hins vegar málnotkunarlegri textaathugun, kemur greinilega fram samspil mikilvægra þátta frá báðum hliðum. Hið vitsmunalega sem tengist skynjuninni gefur grundvöllinn fyrir hugtak, en hið málfræðilega og menningarlega, það er notkun málhafanna, gerir það að verkum að hægt er að móta hugtakakjarna merkingarlega á ýmsan máta. Auk þess speglar málkerfið þá staðreynd að samband orðs og merkingar breytist, bæði þegar orðin sjálf breytast og þegar hugmyndir málhafanna um umheiminn breytast.

Um doktorinn

Þórhalla Guðmundsdóttir Beck lauk BA prófi í táknmálsmálfræði og MA prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands.

Image

Höskuldur Þráinsson, Rannveig Sverrisdóttir, Jón Karl Helgason, Kristín M. Jóhannsdóttir, Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, Rósa Signý Gísladóttir, Matthew Whelpton og Jón Hilmar Jónsson.