Header Paragraph

Vigdísarverðlaun veitt í þriðja sinn

Image

Juergen Boos, forstjóri Bókastefnunnar í Frankfurt, hlaut nýverið alþjóðlegu Vigdísarverðlaunin 2022 við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningarheima og þýðingastarfs. Rósa Signý Gísladóttir, formaður stjórnar Málvísindastofnunar Háskóla Íslands, er formaður stjórnar Vigdísarverðlaunanna.

Juergen Boos hlýtur Vigdísarverðlaunin fyrir störf sín við Bókastefnuna í Frankfurt sem er stærsta og áhrifamesta bókastefna heims. Bókastefnan kynnir bókmenntir frá öllum heimshornum, einnig þær sem skrifaðar eru á tungumálum fámennra málsamfélaga. Árlega býður bókastefnan einu landssvæði að vera heiðursgestur en til að mynda voru bókmenntir frá Íslandi í kastljósinu árið 2011. Í störfum sínum á vegum bókastefnunnar hefur Juergen Boos vakið athygli á ríkidæmi tungumála og menningararfs í heimi bókmennta og veitt þar með höfundum, þýðendum, útgefendum og viðkomandi málsvæðum ómældan stuðning.

Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar efndu til Vigdísarverðlauna í tilefni af stórafmæli Vigdísar Finnbogadóttur vorið 2020, en þá voru jafnframt liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Fyrri handhafar verðlaunanna eru grænlenska ljóðskáldið og málvísindakonan Katti Frederiksen (2021), og færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen (2020).

Image

Rósa Signý Gísladóttir, formaður stjórnar Málvísindastofnunar og formaður stjórnar Vigdísarverðlaunanna, með Vigdísi Finnbogadóttir og Juergen Boos.