Máltæknisetur

Máltæknisetur er rannsóknastofa sem er starfrækt við Háskóla Íslands. Það heyrir undir Hugvísindasvið og starfar innan vébanda Málvísindastofnunar. Setrið er samstarfsvettvangur Málvísindastofnunar Háskóla Íslands, tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík og orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um rannsóknir og þróunarstarf á sviði máltækni. Setrið efnir til samstarfs við aðra aðila eftir því sem tilefni er til.

Hlutverk og markmið

Hlutverk setursins er að vera miðstöð íslenskrar máltækni, og því hlutverki gegnir það m.a. með því að:

  • Vera upplýsingaveita um íslenska máltækni og reka vefsetur í því skyni
  • Stuðla að samstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja um máltækniverkefni
  • Skipuleggja og samhæfa háskólakennslu á sviði máltækni
  • Taka þátt í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á sviði máltækni
  • Eiga frumkvæði að og taka þátt í rannsóknaverkefnum á sviði máltækni
  • Eiga frumkvæði að og taka þátt í hagnýtum verkefnum á sviði máltækni
  • Halda utan um ýmiss konar hráefni og afurðir á sviði máltækni
  • Halda ráðstefnur með þátttöku fræðimanna, fyrirtækja og almennings
  • Beita sér fyrir eflingu íslenskrar máltækni á öllum sviðum

Aðild

Rétt til aðildar að setrinu eiga fræðimenn sem stunda rannsóknir á sviði máltækni innan Málvísindastofnunar, tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík og orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Heimilt er stjórn setursins að veita öðrum fræðimönnum, sem þess óska, aðild, jafnt þeim sem starfa innan Hugvísindasviðs sem utan.

Stjórn, fundir og fjármál

Setrið skal hafa þriggja manna stjórn sem kjörin er til eins árs í senn á aðalfundi og skal þess gætt að einn stjórnarmaður komi frá hverjum aðila.  Stjórnarseta er ólaunuð. Stjórn setursins skal halda a.m.k. einn stjórnarfund á ári, auk aðalfundar, og senda Málvísindastofnun upplýsingar, þegar kallað er eftir þeim, til birtingar í ársskýrslu.

Rannsóknir innan Máltækniseturs eru að jafnaði fjármagnaðar með styrkjum og vinnuframlagi fastra starfsmanna. Setrið nýtur ekki fastra fjárframlaga frá Hugvísindasviði, Hugvísindastofnun eða Málvísindastofnun, en getur sótt um starfstengda styrki. Málvísindastofnun veitir setrinu aðstöðu og hlutdeild í fjárveitingu sem tengist verkefnum innan þess, eftir því sem henni er kleift og stjórn ákveður, en að öðru leyti sjá samstarfsaðilar setrinu fyrir húsnæði og aðstöðu samkvæmt nánara samkomulagi.

Reglur Máltækniseturs eru staðfestar af stjórn Málvísindastofnunar.