Styrkir

Á síðu Hugvísindastofnunar er að finna upplýsingar um ýmsa styrki á sviði hugvísinda. 

Málvísindastofnun veitir meistara- og doktorsnemum ferðastyrki á ráðstefnur og námskeið samkvæmt sérstökum reglum (sjá hér til hliðar). Að auki hefur stofnunin stundum greitt mótframlög með styrkjum sem félagar hafa fengið frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Vinnumálastofnun. Einnig hefur stofnunin stundum veitt félögum sérstaka verkefnastyrki.

Málvísindastofnun getur boðið fræðimönnum til landsins og greiðir þá kostnað við ferðina - fargjald, gistingu og dagpeninga. Um heimsóknir slíkra boðsfyrirlesara gilda sérstakar reglur (sjá hér til hliðar).

Einnig getur stofnunin og rannsóknastofur innan hennar sótt um styrki úr Rannsóknasjóði Hugvísindastofnunar.

Málvísindastofnun veitir nemum sem skráðir eru í meistaranám við Háskóla Íslands og virkir í námi í íslenskri málfræði og almennum málvísindum tvenns konar ferðastyrki sem tengjast náminu. Þetta á einnig við um nema í íslenskum fræðum og máltækni ef tilgangur ferðarinnar tengist málfræðihluta námsins:

1. Styrkur til að halda fyrirlestur á opinberri ráðstefnu eða á vegum rannsóknastofnunar eða háskóladeildar: Hámarksupphæð hvers styrks er 90 þúsund krónur. Hver nemandi getur fengið þrjá styrki, hámark einn á hverju misseri.

2. Styrkur vegna námsdvalar: Veittur er styrkur til að greiða að hluta eða öllu leyti skólagjöld/skráningargjöld á námskeiði/sumarskóla eða vegna sambærilegrar námsdvalar auk 70.000 kr. uppihaldsstyrks. Heildarstyrkur er að hámarki 130.000 kr. Skilyrði er að námið sé metið til eininga. Hver nemandi getur fengið einn styrk af þessu tagi. Þarf hann að hafa verið skráður í meistaranám í a.m.k. eitt misseri og lokið 20 einingum hið minnsta.

Sækja þarf um styrkina fyrir fram. Samþykki stjórn umsóknina þarf að ferð lokinni að leggja fram gögn sem sýna að hún hafi verið farin og fyrirlestur haldinn eða skólagjöld greidd (eftir því sem við á). Styrkur vegna námsdvalar eru greiddur þegar mat á einingum liggur fyrir. Hægt er að sækja um þessa styrki hvenær sem er ársins.

Styrkir til doktorsnema

Málvísindastofnun veitir doktorsnemum sem eiga aðild að stofnuninni tvenns konar ferðastyrki sem tengjast náminu. Doktorsnemar þurfa að vera skráðir í nám og hafa greitt skráningargjald til að eiga rétt á styrk.

1. Styrkur til að halda fyrirlestur erlendis, á opinberri ráðstefnu eða á vegum rannsóknastofnunar eða háskóladeildar: Hámarksupphæð hvers styrks er 90.000 kr. Hver nemandi getur fengið þrjá styrki, hámark einn á hverju misseri. Að jafnaði eru ekki veittir styrkir til sömu ferða og Hugvísindastofnun styrkir. Ef þess er óskað þarf að rökstyðja beiðnina sérstaklega.

2. Lengri dvalarstyrkur: Styrkur til að afla heimilda á skjalasöfnum eða vel búnu háskólabókasafni, dvelja við erlendan háskóla eða rannsóknastofnun sem tengist viðfangsefni rannsóknar eða sækja skipulögð námskeið (t.d. sumarskóla). Lágmarksdvalartími er alla jafna tvær vikur. Hægt er að fá tvo styrki sem miðast við flugfargjald á hagstæðum kjörum, 70.000 kr. uppihaldsstyrk og greiðslu skólagjalda að fullu eða öllu leyti. Séu skólagjöld sérlega há má sameina styrkina, þ.e. taka einn í stað tveggja. Uppihaldsstyrkur hækkar þó ekki. Við mat á umsókn er tekið tillit til annarra styrkja til ferðarinnar. Styrkir af þessu tagi eru í heild að hámarki 300.000. Styrkur af þessu tagi er að jafnaði ekki veittur fyrr en fyrsta misseri er lokið.

Sækja þarf um styrkina fyrir fram og fá samþykki leiðbeinanda fyrir umsókninni. Samþykki stjórn umsóknina þarf að ferð lokinni að skila afriti af farseðli og brottfararspjaldi og kvittunum fyrir skólagjöldum (ef við á).

Hægt er að sækja um þessa styrki hvenær sem er ársins.

Málvísindastofnun hefur oft greitt mótframlög með styrkjum sem félagar í stofnuninni hafa fengið frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Þessi mótframlög miðast við ein mánaðarlaun að hámarki samkvæmt taxta Nýsköpunarsjóðs en þó er heimilt að nýta upphæðina að hluta til í annað en launakostnað ef stjórn stofnunarinnar samþykkir það. (Þessi upphæð er 300.000 krónur fyrir árið 2020.) Félagar í Málvísindastofnun sem sækjast eftir slíkum mótframlögum skulu hafa samband við stjórn stofnunarinnar áður en sótt er um styrkinn.

Málvísindastofnun veitti um skeið verkefnastyrki sem ætlaðir voru til að

  • undirbúa rannsóknarverkefni eða styrkumsókn, t.d. gera forkönnun. Þurfi að gera upp á milli jafngóðra umsókna að mati stjórnar njóta félagar sem ekki hafa notið rannsóknarstyrkja að undanförnu forgangs við úthlutun.
  • ljúka verkefnum sem hafa notið styrkja úr rannsóknasjóðum en ekki hefur tekist að hnýta alla lausa enda í
  • skipuleggja, skrá og ganga frá margvíslegum rannsóknargögnum sem hafa orðið til í rannsóknar- og þróunarverkefnum, og gera þau aðgengileg.

Ef fjárhagur stofnunarinnar leyfir, býður Málvísindastofnun fræðimönnum til landsins, að jafnaði einum á ári, og greiðir kostnað við ferðina – fargjald, gistingu og dagpeninga. Miðað er við að heildar­kostnaður fari ekki yfir 350 þús. kr. Gert er ráð fyrir að fræðimaðurinn dveljist á landinu í 5-7 daga og flytji a.m.k. einn opinberan fyrirlestur. Einnig er gert ráð fyrir að hann taki þátt í fundum og málstofum með félögum í Málvísindastofnun.

Markmiðið með heimsókninni er að fá til landsins virtan fræðimann sem getur miðlað af þekkingu sinni og reynslu til félaga í Málvísindastofnun. Æskilegt er að heimsóknin tengist fræðasviði sem verið er að byggja upp eða rannsóknarverkefnum sem áform­að er að ráðast í, en einnig er hægt að bjóða framúrskarandi fræðimönnum sem sérstakur fengur er að fá til landsins. Yfirleitt er ekki veittur styrkur til heimsókna sem ein­göngu nýtast verkefnum sem standa yfir og hafa fengið rannsóknarstyrk.

Félagar í Málvísindastofnun geta sótt um að fá að bjóða fræðimanni til landsins sam­kvæmt þessum reglum. Umsóknin skal berast stjórn Málvísindastofnunar fyrir 1. júní. Í henni þarf að rökstyðja væntanlegan ávinning af komu fræðimannsins, nefna hugsanlega tímasetningu heimsóknarinnar og áætla kostnað. Einnig þarf að fylgja áætlun um hvernig ætlunin er að nýta heimsóknina, bæði sem almenna kynningu í þágu félaga í Málvísindastofnun og í tengslum við verksvið og verkefni umsækjanda og samstarfsmanna hans.

Stjórn Málvísindastofnunar fjallar um umsóknirnar og ákveður fyrir 1. júlí hvaða heim­sókn verður styrkt hverju sinni. Við það mat er byggt á þeim atriðum sem nefnd eru í þessum reglum. Sé erfitt að gera upp á milli umsókna er heimilt að bjóða tveim gestum sama árið ef fjárhagur stofnunarinnar leyfir.