Árbók Háskóla Íslands 2011

Stjórn og starfsmenn

Fulltrúar kennara voru eins og áður þeir Höskuldur Þráinsson, stjórnarformaður, og Matthew Whelpton. Fulltrúi framhaldsnema var Theódóra A. Torfadóttir, en Rannveig Sverrisdóttir var varamaður í stjórn. Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar. Stofnunin hafði aðstöðu í Gimli fram í september en fluttist þá á 3. hæð Árnagarðs. Þá deilir stofnunin vinnuherbergi á 3. hæð Nýja-Garðs.

Dr. Þórhallur Eyþórsson var ráðinn sérfræðingur við Málvísindastofnun frá 1. júlí 2011 í samræmi við nýjar reglur Hugvísindastofnunar slíkar ráðningar. Þórhallur hafði aðstöðu í vinnuherbergi stofnunarinnar, og sömuleiðis Tania Strahan nýdoktor þar til starfssamningur hennar rann út. Ýmsir rannsóknamenn höfðu tímabundna vinnuaðstöðu í Árnagarði, Nýja-Garði og hjá Stofnun Árna Magnússonar að Neshaga 16.

Félagar í Málvísindastofnun á árinu voru 25, en þá eru ótaldir rannsóknamenn í tímabundnum verkefnum.

 

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsóknaverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu bættust þrjú ný verkefni í þann hóp:

  • Eiríkur Rögnvaldsson er verkefnisstjóri íslenska hlutans í META-NORD, en það er máltækniverkefni sem nýtur styrks frá Evrópusambandinu.
  • Matthew Whelpton er verkefnisstjóri íslenska hlutans í verkefninu Evolution of Semantic Systems, en því er stýrt frá Max Planck Institute of Psycholinguistics í Nijmegen.
  • Rannveig Sverrisdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson sitja í stjórn verkefnisins Rannsókn á málfræði táknmála í Evrópu, en það er svokallað COST-verkefni á vegum Evrópusambandsins.

Þá var haldið áfram vinnu við ýmis verkefni sem hafa notið styrkja frá Rannsóknasjóði (gegnum RANNÍS), Rannsóknasjóði Háskólans, Þjóðhátíðarsjóði o.fl. Þetta eru einkum verkefnin „Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð“ (RANNÍS og Þjóðhátíðarsjóður, Höskuldur Þráinsson o.fl.), „Málfræðilegar formdeildir og hlutverksliðir með hliðsjón af miðlunarhætti“ (RANNÍS, Jóhannes Gísli Jónsson o.fl.), „Hagkvæm máltækni utan ensku – íslenska tilraunin“ (öndvegisstyrkur frá RANNÍS, Eiríkur Rögnvaldsson o.fl.), „Samspil bragkerfis, hljóðkerfis og setningagerðar“ (RANNÍS, Þórhallur Eyþórsson o.fl.), „Söguleg hljóðkerfis- og beygingarfræði forníslenzku“ (RANNÍS, Jón Axel Harðarson), „Söfnun og skráning gagna um íslenska táknmálið“ (Þjóðhátíðarsjóður, Rannveig Sverrisdóttir), „Indo-European case and argument structure in a typological perspective“ (Háskólinn í Bergen, íslenskur meðstjórnandi Þórhallur Eyþórsson), „Sögulegur íslenskur trjábanki“ (Rannsóknasjóður HÍ, Eiríkur Rögnvaldsson), „Brag- og málkerfi dróttkvæða og rímna: textavinna og braggreining“ (Rannsóknasjóður HÍ, Kristján Árnason), „Umskráning og aðlögun mállýskugagna“ (Rannsóknasjóður HÍ, Höskuldur Þráinsson), „Íslenskt mál á 19. öld“ (Rannsóknasjóður HÍ, Jóhannes Gísli Jónsson). Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Loks má nefna að Málvísindastofnun fékk sjálf styrk frá Vinnumálastofnun til þess að ráða starfsmann til að endurnýja heimasíðu.

Styrkir sem stofnunin veitti

Stofnunin tók upp þá nýbreytni að veita MA-nemum styrki til þess að fara á ráðstefnur erlendis til að flytja fyrirlestra, enda eiga þeir ekki kost á öðrum styrkjum til þess. Stofnunin veitti tvo slíka styrki á árinu. Önnur nýjung voru mótframlög vegna styrkja úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og frá Vinnumálastofnun. Þrír slíkir styrkir voru veittir á árinu, tveir vegna verkefna sem Nýsköpunarsjóður styrkti og einn vegna styrks frá Vinnumálastofnun.

 

Kynningarstarfsemi og útgáfa
 

Ný heimasíða

Meginþáttur í kynningarstarfsemi stofnunarinnar á árinu var vinna við nýja heimasíðu (malvis.hi.is). Þar má nú finna ítarlegar upplýsingar um félaga í stofnuninni og rannsóknir þeirra, yfirlit yfir útgáfubækur stofnunarinnar, fræðilegar ráðstefnur sem eru á döfinni, upplýsingar um rannsóknastyrki o.s.frv.

Ráðstefnur

Stofnunin átti aðild að eftirfarandi ráðstefnum á árinu:

  • Aðild að Rask-ráðstefnu með Íslenska málfræðifélaginu í janúar 2011.
  • Heimsókn próf. Frans Gregersen, Kaupmannahöfn, á Hugvísindaþing í mars 2011.
  • Stuðningur við alþjóðlega bragfræðiráðstefnu í september 2011 (tengd rannsóknaverkefnum Þórhalls Eyþórssonar og Kristjáns Árnasonar).

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna að þessu sinni.

Útgáfa

Meginkostnaður stofnunarinnar vegna útgáfustarfsemi á árinu fólst í því að sjá um umbrot og frágang á nýrri útgáfu bókarinnar Faroese: A Handbook and Reference Grammar eftir Höskuld Þráinsson o.fl. Málvísindastofnun gefur bókina nú út í samvinnu við forlagið Fróðskap í Færeyjum. Nokkrar kennslubækur voru endurútgefnar, en engar nýjar bækur komu út á árinu.

 

Fjármál

Málvísindastofnun fær fast framlag frá Hugvísindastofnun, eins og aðrar aðildarstofnanir Hugvísindastofnunar. Auk þess fær stofnunin viðbótarframlag sem er í hlutfalli við þá rannsóknastyrki sem félagar í stofnuninni afla. Þar sem félagar í Málvísindastofnun hafa fengið allmarga styrki úr samkeppnissjóðum undanfarin ár hefur fjárhagur stofnunarinnar batnað til muna.