Árbók Háskóla Íslands 2016

Almennt um stofnunina og starfsemina

Stjórn Málvísindastofnunar var eins skipuð og undanfarin ár. Fulltrúar kennara voru Eiríkur Rögnvaldsson, stjórnarformaður, og Rannveig Sverrisdóttir, en Sigríður Þorvaldsdóttir er varamaður. Bjarki Karlsson var fulltrúi framhaldsnema.

Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Stofnunin hefur í raun enga fasta aðstöðu lengur en hefur aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er hluti af bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.

Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 29, þar af níu doktorsnemar. Þá eru ótaldir rannsóknamenn í tímabundnum verkefnum og erlendir gistifræðimenn.

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu 2016 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

  • Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Öndvegisstyrkur frá Rannsóknasjóði. Verkefnisstjórar Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson.
  • Heili og tungumál: taugamálfræði og samspil setningagerðar og merkingar í íslensku. Verkefnisstyrkur frá Rannsóknasjóði. Verkefnisstjóri Matthew Whelpton.
  • Vélrænn upplýsingaútdráttur. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Eiríkur Rögnvaldsson.
  • Nýting rannsóknagagna: Aðgengi og samþætting. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Höskuldur Þráinsson.
  • Þyngd liða og færslur í íslensku. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson.
  • Colour in Context: Comparing Icelandic and Icelandic Sign Language. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Matthew Whelpton.
  • Nýja setningagerðin og framvinduhorf í máli ungra íslenskra barna. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Sigríður Sigurjónsdóttir.
  • Netsamskipti á Íslandi - málnotkun í óformlegu umhverfi netsins og viðhorf til hennar. Doktorsnemastyrkur frá Rannsóknasjóði til Vanessu Moniku Isenmann.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands og Rannsóknasjóði Háskólans - sjá ársskýrslur undanfarinna ára. Ótaldar eru svo allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Styrkir sem stofnunin veitti

Framhaldsnemar, bæði meistara- og doktorsnemar, geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum, en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu veitti stofnunin einn ferðastyrk og einn styrk til þess að sækja námskeið.

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Ráðstefnur og málþing

Stofnunin stóð fyrir eða átti aðild að eftirtöldum ráðstefnum, málþingum og vinnustofum á árinu:

  • Höskuldarþing. Málþing til heiðurs Höskuldi Þráinssyni prófessor sjötugum, haldið í Reykjavík 16. janúar 2016 í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið.
  • 30. Rask-ráðstefnan, haldin í Reykjavík 29.-30. janúar 2016 í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið.
  • GLAC 22, árleg ráðstefna Society for Germanic Linguistics, haldin í Reykjavík 20.-22. maí 2016. Skipuleggjendur Haraldur Bernharðsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Margrét Guðmundsdóttir, Tonya Kim Dewey og Þórhallur Eyþórsson.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og undanfarin ár.

Útgáfa

Stofnunin átti aðild að útgáfu tveggja nýrra bóka á árinu:

  • Approaches to Nordic and Germanic Poetry. Ritstjórar Kristján Árnason, Stephen Carey, Tonya Kim Dewey, Haukur Þorgeirsson, Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Þórhallur Eyþórsson. Gefin út í samvinnu við Háskólaútgáfuna.
  • Hljóð og hlustun. Höfundar María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir. Gefin út í samvinnu við Háskólaútgáfuna.

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum. Þetta eru Máltæknisetur og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum. Starfsemi Máltækniseturs hefur legið niðri en ársskýrsla Rannsóknastofu í táknmálsfræðum fyrir 2016 er hér.