Árbók Háskóla Íslands 2018

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Aðalfundur Málvísindastofnunar var haldinn miðvikudaginn 6. júní 2018 og þar var ný stjórn kosin: Jóhannes Gísli Jónsson, formaður, og Sigríður Þorvaldsdóttir (fulltrúi kennara) en Guðrún Þórhallsdóttir sem varamaður. Stephanie Bade er fulltrúi doktorsnema.

Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 34, þar af 12 doktorsnemar. Stofnunin hefur enga fasta aðstöðu en hefur aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er hluti af bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.

Rannsóknir

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum eða taka þátt í þeim. Á árinu 2018 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

Máltæknileg athugun á íslenskum beygingartilbrigðum. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Anton Karl Ingason.

S3 á 19. öld og formgerð aukasetninga. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson.

Þyngdaráhrif og tilbrigði í orðaröð í íslensku og færeysku. Doktorsnemastyrkur frá Rannsóknasjóði til Ingunnar Hreinberg Indriðadóttur.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands (gegnum RANNÍS) og Rannsóknasjóði Háskólans. Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Styrkir stofnunarinnar

Framhaldsnemar geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísinda-stofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu voru tveir ferðastyrkir veittir til framhaldsnema, báðir að upphæð 90.000 krónur.

Ráðstefnur og málþing

Stofnunin átti aðild að eftirtöldum ráðstefnum, málþingum, fyrirlestrum og kynningum á árinu:

32. Rask-ráðstefnan í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, haldin í fyrirlestrasal Þjóðminja-safnsins laugardaginn 27. janúar 2018 og helguð minningu Magnúsar Snædal, prófessors í almennum málvísindum, sem lést síðla árs 2017. Á ráðstefnunni voru haldin 12 erindi um fjölbreytt málfræðileg efni, auk stuttra minningarorða um Magnús.

Ellefta norræna mállýskuráðstefnan (Den 11 nordiska dialektologkonferensen), haldin í Lögbergi, 20.-22. ágúst 2018.

Jim Wood, dósent í málvísindum við háskólann í Yale, hélt fyrirlestur í Árnagarði, fimmtudaginn 13. september 2018. Fyrirlesturinn nefndist Putting our heads together: Inheritance and deverbal event nouns in Icelandic.

Ólafsþing 2018, haldið í Neskirkju, laugardaginn 27. október 2018, í samvinnu við Mál og sögu.

Kynningarkvöld fyrir íslenskunema í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið og Mími, haldið í Veröld – húsi Vigdísar, miðvikudaginn 14. nóvember.

Nicole Dehé, prófessor í málvísindum við háskólann í Konstanz, hélt fyrirlestur í Árnagarði, mánudaginn 19. nóvember 2018. Fyrirlesturinn nefndist Prepositions and case assignment in North American Icelandic – the lexicon-morphology interface.

Málþing til heiðurs Kristjáni Árnasyni, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands,  haldið í Árnagarði, laugardaginn 24. nóvember 2018. Sama dag kom út greinasafn Kristjáns, Á vora tungu.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um Málvísindakaffi á föstudögum í Árnagarði en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og undanfarin ár.

Útgáfa

Tilbrigðabók III kom út á árinu en hún var gefin út af Málvísindastofnun í samvinnu við Háskólaútgáfuna. Útgáfufagnaður vegna hennar var haldinn föstudaginn 5. október. Þá var samþykkt að veita 300.000 króna styrk vegna útgáfukostnaðar við Esterarbók eftir Jón R. Gunnarsson. Auk þess hefur Málvísindastofnun gefið vilyrði fyrir því að styrkja útgáfu bókanna Á vora tungu og Sigurtungu sem komu út árið 2018.

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum, Máltæknisetur og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum.