Árbók Háskóla Íslands 2019

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Aðalfundur Málvísindastofnunar var haldinn fimmtudaginn 2. maí 2019. Stjórnin var eins og áður skipuð eftirtöldum einstaklingum: Jóhannes Gísli Jónsson, formaður, og Sigríður D. Þorvaldsdóttir (fulltrúar kennara) en Guðrún Þórhallsdóttir sem varamaður. Stephanie Bade er fulltrúi doktorsnema.

Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 34, þar af 11 doktorsnemar. Stofnunin hefur enga fasta aðstöðu en hefur aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er hluti af bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.

Rannsóknir

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum eða taka þátt í þeim. Á árinu 2019 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

Máltæknileg athugun á íslenskum beygingartilbrigðum. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri: Anton Karl Ingason.

Umröðun andlaga í íslensku. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri: Jóhannes Gísli Jónsson.

Tveggja andlaga sagnir í íslensku og færeysku. Styrkur frá Rannsóknasjóði (Rannís). Verkefnisstjórar: Cherlon Ussery og Jóhannes Gísli Jónsson.

Mállýskumunur í tónfallskerfi íslensku: samanburður á tónfalli Norðlendinga og Sunnlendinga. Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnisstjóri: Ásgrímur Angantýsson.

Sögur fyrir þá sem leggja stund á íslensku sem annað mál. Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnisstjóri: María Anna Garðarsdóttir.

Upptökur á íslenska táknmálinu - rannsókn á setningagerð, tilbrigðum og öðrum málfræðilegum eiginleikum íslenska táknmálsins. Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnisstjóri: Rannveig Sverrisdóttir.

Allir sem fengu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fengu mótframlag frá Málvísindastofnun að upphæð 300.000 krónur en það samsvarar einum mánaðarlaunum skv. útreikningi Nýsköpunarsjóðs.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands (gegnum RANNÍS) og Rannsóknasjóði Háskólans. Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Styrkir stofnunarinnar

Framhaldsnemar geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu voru tveir ferðastyrkir veittir til framhaldsnema, báðir að upphæð 90.000 krónur. Auk þess var einn dvalarstyrkur veittur að upphæð 300.000 krónur.

Ráðstefnur og málþing

Stofnunin átti aðild að eftirtöldum ráðstefnum, málþingum, fyrirlestrum og kynningum á árinu:

33. Rask-ráðstefnan um íslenskt mál og almenna málfræði í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, haldin í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 26. janúar 2019. Á ráðstefnunni voru haldin 14 erindi um ýmis málfræðileg efni.

8th Conference of the International Association of Literary Semantics (IALS), haldin í Lögbergi, 15.-17. apríl 2019, í samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun og Rannsóknarstofu í hugrænum fræðum.

Islands of Cognition, haldið í Veröld, 26. apríl 2019.

Boðnarþing, málþing um ljóðlist og óðfræði, haldið laugardaginn 11. maí 2019 í Safnaðarheimili Neskirkju, í samvinnu við Óðfræðifélagið Boðn.

Psycholinguistics in Iceland – Parsing and Prediction, haldið í Veröld, 19.-20. júní 2019.

19th International Symposium of Processability Approaches to Language Acquisition (PALA), haldið í Veröld, 13.-14. september 2019.

Þorsteinn G. Indriðason, prófessor í norrænum málvísindum við háskólann í Bergen, hélt fyrirlestur í Árnagarði, þriðjudaginn 8. október 2019, í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið. Fyrirlesturinn nefndist Af hverju er viðskeytið -legur svona virkt í íslensku? Söguleg úttekt.

Þriðja Ólafsþing, haldið í Neskirkju, laugardaginn 26. október 2019, í samvinnu við Mál og sögu.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um Málvísindakaffi á föstudögum í Árnagarði en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og undanfarin ár.

Þá hefur stofnunin gefið vilyrði fyrir stuðningi við ráðstefnuna Generative Approaches to Language Acquisition – North America 9 (GALANA 9) sem upphaflega átti að halda 21.-23. ágúst 2020.

Útgáfa

Stofnunin veitti 300.000 króna styrk vegna bókanna Sigurtunga og Á vora tunguAfmælisrit til heiðurs Kristjáni Árnasyni, samtals 600.000 krónur. Auk þess keypti stofnunin 100 eintök af nýjustu prentun bókarinnar Faroese: An Overview and Reference Grammar en Háskólaútgáfan mun sjá um dreifinguna.

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Þrjár rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum, Máltæknisetur, Rannsóknastofa um máltileinkun og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum.