Árbók Háskóla Íslands 2020

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Aðalfundur Málvísindastofnunar var haldinn þriðjudaginn 23. júní 2020. Stjórnin var eins og áður skipuð eftirtöldum einstaklingum: Jóhannes Gísli Jónsson, formaður, og Sigríður D. Þorvaldsdóttir (fulltrúar kennara) en Guðrún Þórhallsdóttir sem varamaður. Stephanie Bade er fulltrúi doktorsnema.

Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 34, þar af 13 doktorsnemar. Stofnunin hefur enga fasta aðstöðu en hefur aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er hluti af bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum eða taka þátt í þeim. Á árinu 2020 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

Máltæknileg athugun á íslenskum beygingartilbrigðum. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri: Anton Karl Ingason.

Gerð atvikssetninga í íslensku og færeysku. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri: Ásgrímur Angantýsson.

Umröðun andlaga: sagnmynd, ákveðni og þyngdaráhrif. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri: Jóhannes Gísli Jónsson.

Óviðeigandi orð. Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnisstjóri: Anton Karl Ingason. (fyrri úthlutun)

Elstu íslensku handritin og elsta íslenska. Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnis-stjóri: Haraldur Bernharðsson. (seinni úthlutun)

Málvísindastofnun greiddi mótframlag að upphæð 300.000 krónur vegna fyrri úthlutunar Nýsköpunarsjóði námsmanna en það samsvarar einum mánaðarlaunum samkvæmt útreikningi sjóðsins. Auk þess fékk Haraldur Bernharðsson mótframlag vegna ráðningarstyrks til sumarstarfa á vegum Vinnumálastofnunar, 267.000 krónur.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands og Rannsóknasjóði Háskólans. Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Styrkir stofnunarinnar

Framhaldsnemar geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir geta líka sótt um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu var einn ferðastyrkur veittur til meistaranema að upphæð 90.000 krónur. Auk þess var einn dvalarstyrkur veittur til doktorsnema að upphæð 270.000 krónur.

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Ráðstefnur og málþing

Vegna COVID-19 var mjög lítið um ráðstefnur og fyrirlestra á árinu og ýmsum viðburðum frestað. Tonjes Veenstra, málvísindamaður á Leibniz-stofnuninni í Berlín, átti að vera boðsgestur Málvísindastofnunar og dveljast hér á landi 1.–10. maí 2020 en þessari heimsókn var frestað um óákveðinn tíma. Stofnunin átti aðild að einni ráðstefnu:

34. Rask-ráðstefnan um íslenskt mál og almenna málfræði í samvinnu við Íslenska málfræði-félagið, haldin í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 25. janúar 2020. Á ráðstefnunni voru haldin 12 erindi um ýmis málfræðileg efni.

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um Málvísindakaffi á föstudögum í Árnagarði en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og undanfarin ár. Vegna COVID-19 reyndist aðeins hægt að halda Málvísindakaffi tvisvar á árinu, 28. febrúar og 11. mars.

Aðalfundur Málræktarsjóðs var haldinn föstudaginn 12. júní kl. 15.30  á Hótel Sögu. Stefanie Bade, doktorsnemi í íslenskri málfræði, var fulltrúi Málvísindastofnunar á fundinum.

Heimasíða

Undir lok ársins voru gerðar ýmsar lagfæringar á heimasíðu stofnunarinnar (https://malvis.hi.is/). Þannig voru óvirkir hlekkir fjarlægðir og upplýsingar um sérsvið félaga voru einfaldaðar. Í framhaldi af því var Oddur Snorrason, MA-nemi í íslenskri málfræði, ráðinn til að gera veigamiklar breytingar á síðunni þannig að hún verði bæði líflegri og þægilegri í notkun.

Útgáfa

Stofnunin samþykkti að veita 300.000 króna styrk vegna greinasafns Höskuldar Þráinssonar (Málið er) í tilefni af 75 ára afmæli hans.

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Þrjár rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum, Máltæknisetur, Rannsóknastofa um máltileinkun og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum.