Árbók Háskóla Íslands 2015

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Stjórn Málvísindastofnunar var kjörin til þriggja ára á aðalfundi 2014. Fulltrúar kennara eru Eiríkur Rögnvaldsson, stjórnarformaður, og Rannveig Sverrisdóttir, en Sigríður Þorvaldsdóttir er varamaður. Bjarki M. Karlsson er fulltrúi framhaldsnema. Stjórnin naut sem fyrr liðsinnis verkefnastjóra Hugvísindastofnunar, Margrétar Guðmundsdóttur. Stofnunin hafði aðstöðu á 3. hæð Árnagarðs. Fram á haust hafði stofnunin einnig aðstöðu í vinnuherbergi á 3. hæð Nýja-Garðs, en þar hefur verið unnið við úrvinnslu framburðargagna. Þeim gögnum hefur nú verið komið fyrir í læstum skápum í opnu rými við enda gangs á 4. hæð í Árnagarði. Stofnunin hefur líka aðgang að geymslu í kjallara Árnagarðs og þar er bókalager hennar geymdur, fyrir utan þær útgáfubækur sem Háskólaútgáfan sér um dreifingu á.Ýmsir rannsóknamenn og gestir höfðu tímabundna vinnuaðstöðu í Árnagarði og Nýja-Garði. Félagar í Málvísindastofnun á starfsárinu voru 29, þar af níu doktorsnemar. Þá eru ótaldir rannsóknamenn í tímabundnum verkefnum og erlendir gistifræðimenn.

 

Rannsóknir

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir til félaga í Málvísindastofnun

Félagar í Málvísindastofnun stýra fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum eða taka þátt í þeim, ýmist íslenskum eða fjölþjóðlegum. Á árinu 2015 bættust m.a. þessi verkefni í þann hóp:

  • Gríðarstór stafrænn gagnagrunnur. Styrkur frá Inniviðasjóði (RANNÍS). Verkefnisstjóri Eiríkur Rögnvaldsson.
  • Vélræn þáttun forníslensku: Samanburður aðferða. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Eiríkur Rögnvaldsson.
  • L2 Learner Identity from a CA-SLA perspective. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Guðrún Theodórsdóttir.
  • Íslenska heima og heiman. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Höskuldur Þráinsson.
  • Þyngd liða og færslur í íslensku. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Jóhannes Gísli Jónsson.
  • Dulin viðhorf til íslenskra málbrigða, mat á málnotkun. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Kristján Árnason.
  • Tæmandi gotneskt-íslenskt orðasafn sem vísar í bækur Nýja testamentis. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Magnús Snædal.
  • Syntactic Change in Icelandic: Documentation in Corpora. Styrkur frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnisstjóri Þórhallur Eyþórsson.

Þá var haldið áfram vinnu við eldri verkefni sem hafa notið ýmissa rannsóknarstyrkja, einkum frá Rannsóknasjóði Íslands (gegnum RANNÍS) og Rannsóknasjóði Háskólans. Þetta eru t.d. verkefnin „Colour in Context: Comparing Icelandic and Icelandic Sign Language“ (Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, verkefnisstjóri Matthew Whelpton); „Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd“ (RANNÍS, verkefnisstjórar Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir (SVF), Kristján Árnason, Matthew J. Whelpton o.fl); „Samlíðan – Tungumál, bókmenntir, samfélag“ (RANNÍS, verkefnisstjóri Bergljót S. Kristjánsdóttir (B&L), Jóhannes Gísli Jónsson, Þórhallur Eyþórsson o.fl.); Stökkbreytingar í íslenskri setningagerð“ (RANNÍS, Þórhallur Eyþórsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Kristján Árnason o.fl.); „Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld – Tilurð opinbers málstaðals“ (RANNÍS, Ásta Svavarsdóttir (SÁMÍF), Eiríkur Rögnvaldsson, Guðrún Þórhallsdóttir, Haraldur Bernharðsson o.fl.); „Rannsókn á málfræði táknmála í Evrópu“ (COST-verkefni, Rannveig Sverrisdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson); „EVALISA: The Evolution of Case, Alignment and Argument Structure in Indo-European“ (ERC-styrkur, verkefnisstjóri Jóhanna Barðdal, Gent; íslenskur þátttakandi Þórhallur Eyþórsson). Þá eru ótaldar allar þær rannsóknir sem félagar í stofnuninni vinna að í rannsóknatíma sínum án þess að hljóta til þess sérstaka styrki.

Styrkir sem stofnunin veitti

Framhaldsnemar, bæði meistara- og doktorsnemar, geta sótt um styrki frá Málvísindastofnun til að sækja fræðileg námskeið, enda nýtist þau beint í námi þeirra. Þeir eiga líka kost á því að sækja um ferðastyrki vegna fyrirlestrahalds á ráðstefnum, en doktorsnemar geta einnig sótt um ferðastyrki til Hugvísindastofnunar og Háskóla Íslands. Þá geta doktorsnemar sótt um styrki til þess að dveljast við fræðastofnanir. Á árinu veitti stofnunin einum framhaldsnema styrk til þess að sækja námskeið.

Stofnunin hefur einnig veitt félögum mótframlög til að greiða launatengd gjöld vegna styrkja frá Vinnumálastofnun. Á árinu fengu þrír félagar slíka styrki.

Heimsóknir fræðimanna

Eitt af hlutverkum Málvísindastofnunar er að taka á móti málfræðingum sem vilja dveljast við Háskóla Íslands í tiltekinn tíma til að sinna rannsóknum sínum. Þetta gerir stofnunin oft í samvinnu við Hugvísindastofnun. Þessir gestir fá yfirleitt vinnuaðstöðu í herbergi stofnunarinnar á 3. hæð Árnagarðs. Anton Karl Ingason, doktorsnemi við University of Pennsylvania, fékk aðstöðu þar allt árið en hann sinnti einnig stundakennslu í námsbraut í íslensku og vann við verkefni styrkt af Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur.

 

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Ráðstefnur og málþing

Stofnunin átti aðild að eftirtöldum ráðstefnum, málþingum og vinnustofum á árinu:

Þá hafði stofnunin samvinnu við Íslenska málfræðifélagið um hið svokallaða „Málvísindakaffi“ á föstudögum, en Málfræðifélagið sá um skipulagninguna eins og undanfarin ár.

 

Útgáfa

Stofnunin átti aðild að útgáfu þriggja nýrra bóka á árinu:

 

Rannsóknastofur tengdar Málvísindastofnun

Tvær rannsóknastofur starfa innan vébanda Málvísindastofnunar en í samvinnu við aðrar stofnanir samkvæmt sérstökum reglum. Þetta eru Máltæknisetur og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum.

 

Máltæknisetur

Máltæknisetur er samstarfsvettvangur Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um rannsóknir, þróunarstarf og kennslu á sviði máltækni. Setrið er jafnframt stofa innan Málvísindastofnunar. Í stjórn þess sitja Eiríkur Rögnvaldsson (formaður), Hrafn Loftsson og Sigrún Helgadóttir.

Máltæknisetur stóð fyrir umsókn í Innviðasjóð um gerð gríðarstórs stafræns textagrunns fyrir íslensku. Verkefnið fékk styrk að upphæð tæpar fimm milljónir króna. Það verður unnið hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en verkefnisstjóri er Eiríkur Rögnvaldsson. Vinna við verkefnið hófst á árinu en verður aðallega unnin árið 2016.

Eiríkur Rögnvaldsson sótti um styrk úr nýstofnuðum Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til að þróa námsefni og hugbúnað fyrir kennslu í íslenskri máltækni. Styrkur að upphæð fjórar milljónir króna fékkst til verksins. Anton Karl Ingason doktorsnemi vinnur verkið og hóf störf við það á árinu.

Auk þess var unnið áfram að tveimur verkefnum undir hatti setursins. Annars vegar yfirferð á talmálsgögnum sem safnað var við gerð íslensks talgreinis á árunum 2011-2012 (Málrómur). Til þessa verkefnis fékkst styrkur frá Vinnumálastofnun en Málvísindastofnun lagði til mótframlag (launatengd gjöld). Hins vegar var unnið við svonefndan Gullstaðal sem nýttur verður við áframhaldandi þróun markara fyrir íslensku. Stúdentar í íslensku unnu að báðum þessum verkefnum.

 

 

Rannsóknastofa í táknmálsfræðum

Stjórn, starfsmenn og húsnæði

Rannsóknastofa í táknmálsfræðum er samstarfsvettvangur fræðimanna Málvísindastofnunar Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) sem stunda rannsóknir á táknmáli. Auk starfsmanna þessara stofnanna eiga nokkrir utanaðkomandi aðilar aðild að rannsóknarstofunni. Starfsmenn HÍ og SHH hafa aðstöðu á sínum vinnustað en stofan hefur að öðru leyti ekki yfir sérstöku húsnæði að ráða. Stjórn stofunnar er skipuð til eins árs í senn og á síðasta ársfundi voru Júlía G. Hreinsdóttir, Rannveig Sverrisdóttir og Valgerður Stefánsdóttir endurkjörnar til ársins 2016.

Rannsóknaverkefni og rannsóknastyrkir

Félagar í rannsóknastofunni hafa undanfarið ár komið að nokkrum rannsóknaverkefnum, bæði innlendum sem fjölþjóðlegum. Á árinu 2015 lauk fjögurra ára verkefni styrktu af COST sem bar heitið Að varpa ljósi á málfræði evrópskra táknmála: leiðir að fullri þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu og varðveisla á málarfleifð þeirra og hafði það markmið að skrifa leiðarvísi að mállýsingum evrópskra táknmála. Þá unnu nokkrir aðilar að rannsóknum á tengisögn í ÍTM og kynntu á ráðstefnum bæði hérlendis og erlendis. Á SHH var haldið áfram vinnu við þróun matstækja og fól það m.a. í sér gagnasöfnun, greiningu og endurmat sem og þjálfun starfsmanna í umritun í ELAN.

Kynningarstarfsemi og útgáfa

Nokkrar greinar eftir aðila rannsóknastofunnar komu út á þessu ári. Að tengja saman epli og appelsínur. Aðaltengingar í íslenska táknmálinu eftir Elísu G. Brynjólfsdóttur og Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur birtist í 36. árgangi tímaritsins Íslenskt mál og almenn málfræði, bókarkaflinn Icelandic Sign Language eftir Kristínu Lenu og Valgerði Stefánsdóttir birtist í Sign Languages of the World: A Comparative Handbook og greinin Variation in wh-questions in Icelandic Sign Language eftir Jóhannes G. Jónsson, Elísu G. Brynjólfsdóttur og Rannveig Sverrisdóttur birtist í ráðstefnuritinu Language Variation - European Perspectives V.